Sló met Schumachers

Lewis Hamilton ekur yfir marklínuna í kappakstrinum í Portimao í …
Lewis Hamilton ekur yfir marklínuna í kappakstrinum í Portimao í Portúgal rétt í þessu. AFP

Lewis Hamilton á Mercedes var í þessu að vinna portúgalska kappaksturinn sem er hans 92. mótssigur í keppni í formúlu-1. Með því sló hann Michael Schumacher við en sá vann á ferli sínum 91 mót.

Hamilton hóf keppni af ráspón en hélt ekki forystunni eins og nær alltaf og missti bæði liðsfélaga sinn Valtteri Bottas og síðar Carlos Sainz á McLaren fram úr sér og þurfti að hafa talsvert fyrir því að verja þriðja sætið.

Að því kom eftir nokkra hringi að þeir urðu að lúta í lægri haldi fyrir Hamilton sem tók kunnuglegt sæti eftir 16 hringi af 66. Nær þrjá  fjórðu vegalengdarinnar ók Hamilton einn og óáreittur fremstur alla leið í mark.

Keppnin var mjög fjörleg fyrstu 15 hringina eða svo, harðar rimmur og óvenjulegur uppgangur ökumanna. Bottas var í öðru sæti í mark en 25,5 sekúndum á eftir Hamilton. Eftir hrakfarir á fyrstu hringjum vann Max Verstappen á Red Bull sig upp og hlaut fjórða sætið, 34,5 sekúndum á efstir fyrsta manni.

Charles Leclerc á Ferrari varð fjórði og 64,980 sekúndum frá sigurtímanum. Liðsfélagi hans Sebastian Vettel stóð sig betur en oftast áður og varð tíundi, rúmum hring á eftir Hamilton.

Fimmti varð Pierre Gasly á AlphaTauri, sjötti Carlos Sainz á McLaren, sjöundi Sergio Perez á Racing Point, áttundi Esteban Ocon Renault og liðsfélagi hans Daniel Ricciardo níundi, og því næst Vettel sem fyrr segir, en allir voru þeir meira en hring á Mercedesbílnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert