Tvöfalt toppsæti hjá Hamilton

Valtteri Bottas slítur dekkjum í Barein í dag.
Valtteri Bottas slítur dekkjum í Barein í dag. AFP

Lewis Hamilton hjá Mercedes sýndi engin merki þess að vera að slaka á þrátt fyrir að hafa unnið titil ökuþóra fyrir tæpum hálfum mánuði því hann ók hraðast á báðum æfingum dagsins í dag í Barein.

Annan besta brautartíma dagsins átti Max Verstappen á Red Bull og þann þriðja liðsfélagi Hamiltons, Valtteri Bottas. Allt er þetta afar kunnugleg skipan á árinu en aðeins þrjú mót eru eftir af keppnistíðinni.

Að æfingunum loknum gagnrýndi Hamilton dekkjafyrirtækið Pirelli sem mætti til leiks með ný dekk sem hugsuð eru fyrir næsta ár. Hamilton sagði þau einfaldlega hafa verið ömurleg. Væru þremur kílóum þyngri og töpuðu sekúndu á hring miðað við dekkin sem verið hafa undir bílunum í ár.

Í sætum fjögur til tíu á lista yfir hröðustu hringi æfinganna beggja urðu - í þessari röð - Sergio Perez á Racing Point, Daniel Ricciardo á Renault, Pierre Gasly á Alpha Tauri, Lando Norris á McLaren, Lance Stroll á Racing Point, Daniil Kvyat á Alpha Tauri og Alex Albon á Red Bull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert