Ekki minn tími til að deyja

Restin af bíl Romain Grosjean eftir óhappið um síðustu helgi.
Restin af bíl Romain Grosjean eftir óhappið um síðustu helgi. AFP

Franski ökumaðurinn Romain Grosjean hjá Haas-liðinu í Formúlu 1 slapp á ótrúlegan hátt úr bíl sínum eftir að hafa skollið á öryggisvegg á 300 kílómetra hraða í kappakstri í Barein síðastliðinn sunnudag. Grosjean sagði að tími hans til að deyja hafi ekki verið kominn.

Óhappið átti sér stað á fyrsta hring kappakstursins, þar sem bíll hans brotnaði í tvennt, festist í grindverki og varð fljótlega alelda.

„Að koma út úr eldhafinu þennan dag er eitthvað sem mun marka djúp spor á líf mitt að eilífu. Fjöldi fólks hefur sýnt mér mikla ást og það hefur snert mig djúpt. Stundum kemst ég við vegna þess,“ sagði Grosjean í samtali við BBC.

„Ég veit ekki hvort kraftaverk séu til eða hvort ég geti notað það orð, en ég myndi segja að minn tími hafi ekki verið kominn,“ bætti hann við.

Grosjean sagði að honum hafi liðið eins og sekúndurnar 28 sem hann var fastur í brennandi flakinu hafi verið miklu lengur að líða.

„Ég hugsaði um margt, þar á meðal Niki Lauda, og að ég gæti ekki endað eins og hann, ekki núna. Ég gat ekki endað sögu mína í Formúlu 1 á þennan hátt.

Svo hugsaði ég um börnin mín. Ég sagði sjálfum mér að ég yrði að komast út. Ég setti hendurnar á grind bílsins og fann þær brenna. Ég komst út og fann svo einhvern toga í búninginn minn. Þá vissi ég endanlega að ég væri sloppinn,“ sagði Grosjean að lokum.

Grosjean er með bruna á báðum handarbökum en stefnir þrátt fyrir það ótrauður á að keppa í síðasta kappakstri Formúlu 1 á árinu, sem fer fram helgina 13. til 15 desember í Abu Dhabi. Enn á eftir að taka lokaákvörðun um hvort Grosjean fái að keppa þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert