Tíu þúsundustu á milli

Lewis Hamilton á Mercedes (framar) og Lando Norris á McLaren …
Lewis Hamilton á Mercedes (framar) og Lando Norris á McLaren á seinni æfingu dagsins í Imola. AFP

Finnska ökumanninum Valttery Bottas tókst að halda liðsfélaga sínum Lewis Hamilton í skefjum á seinni æfingu dagsins í Imola á Ítalíu en þar fer annað mót ársins í formúlu-1 fram á sunnudag.

Aðeins munaði þó 10 þúsundustu úr sekúndu á þeim ökumönnum Mercedes. Þriðja besta tímann setti Pierre Gasly á AlphaTauri og var aðeins 78 þúsundustu úr sekúndu á eftir Bottas.

Æfingin varð endasleppt hjá Max Verstappen á Red Bull sem af málsmetandi mönnum og spekingum var talinn sigurstranglegastur þegar æfingar dagsins runnu  upp. Hætti hann akstri vegna bilunar í bílnum skömmu eftir að æfingin hófst.

Charles Leclerc á Ferrari missti stjórn á bíl sínum er afturdekkin misstu veggrip í beygju með þeim afleiðingum að hann skall á öryggisvegg. Aðeins voru þá eftir fjórar mínútur og var æfingunni aflýst þegar í stað.

Leclerc hafnaði í fimmta sæti, einu á eftir liðsfélaga sínum Carlos Sainz.  Í sætum sex til tíu urðu svo Sergio Perez á Red Bull, Yuki Tsunoda á AlphaTauri, Lando Norris á McLaren,  Antonio Giovinazzi á Alfa Romeo og Lance Stroll á Aston Martin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert