Varð fyrir kynþáttaníði eftir sigurinn í gær

Lewis Hamilton fagnar sigrinum í gær.
Lewis Hamilton fagnar sigrinum í gær. AFP

Lewis Hamilton, ökumaður Mercedes, varð fyrir kynþáttaníði á samfélagsmiðlum eftir að hann vann breska kappaksturinn á heimavelli sínum í Silverstone í gær.

Hamilton stangaði Max Verstapp­en á Red Bull út úr braut­inni á fyrsta hring og var refsað fyrir, fékk 10 sekúndna refsingu, en náði samt sem áður að merja sigur.

Forsvarsmenn Mercedes, Formúlu-1 og FIA fordæmdu níðið. „Þetta fólk á hvergi heima í íþróttinni okkar. Við hvetjum samfélagsmiðlana til þess að draga þá sem hafa beitt níðinu til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar,“ sagði í sameiginlegri yfirlýsingu frá þeim.

„Kynþáttaníðið, sem var beint að Hamilton meðan á breska kappakstrinum stóð og eftir að Hamilton sigraði, er með öllu óásættanlegt og við höfum fjarlægt fjölda athugasemda af Instagram.

Auk þess sem við fjarlægjum athugasemdir og aðganga sem brjóta endurtekið gegn reglum okkar eru til öryggisstillingar sem geta síað út svona athugasemdir og skilaboð, sem þýðir að enginn þarf að sjá níð af þessu tagi,“ sagði í yfirlýsingu frá Facebook, sem á Instagram.

Þetta var í átt­unda sinn sem Hamilt­on vinn­ur breska kapp­akst­ur­inn. Náði hann fyrst for­ystu þegar aðeins þrír hring­ir voru eft­ir.

mbl.is