Sakar Hamilton um að gera sér upp meiðsli

Bifreið Max Verstappens ofan á bifreið Lewis Hamiltons um helgina.
Bifreið Max Verstappens ofan á bifreið Lewis Hamiltons um helgina. AFP

Meðlimur í Red Bull-teymi Formúlu-1 segir að Lewis Hamilton hjá Mercedes hafi gert sér upp meiðsli um síðustu helgi þegar Max Verstappen hjá Red Bull keyrði yfir bifreið Hamiltons í ítalska kappakstrinum.

Bifreið Verstappens skaust upp í loftið sem endaði með því að eitt dekkið fór yfir hlífðargrind bifreiðar Hamiltons, beint fyrir ofan höfuð hans, og hann virtist því sannarlega hafa sloppið vel með skrekkinn.

Helmut Marko, ráðgjafi hjá Red Bull, sagði Hamilton hins vegar hafa gert of mikið úr árekstrinum. „Þetta var venjulegt kappaksturs slys. Allar fréttir um málið voru gripnar á lofti af Mercedes.

Verstappen var þegar kominn úr bílnum sínum þegar Hamilton reyndi að fara aftur á mölina. Læknabíllinn sá það og keyrði framhjá. Svo er sýning sett upp þar sem Hamilton er skyndilega meiddur,“ sagði Marko í samtali við Austurríska miðilinn oe24.

Hamilton sagði sjálfur eftir áreksturinn að hann þakkaði Guði fyrir hlífðargrindina á bifreið sinni og að hann væri með höfuðverk og stífleika í hálsinum eftir hann.

mbl.is