Hamilton heldur pressunni á Verstappen

Hamilton með bikarinn eftir kappakstur dagsins.
Hamilton með bikarinn eftir kappakstur dagsins. AFP

Bretinn Lewis Hamilton vann Formúlu 1 kappaksturinn í Katar í dag. Hamilton byrjaði fremstur og lét forystuna aldrei af hendi. 

Talsverðar sviptingar urðu á upphafsröð ökumanna í morgun en Hollendingurinn Max Verstappen, sem átti að byrja annar á eftir Hamilton, fékk fimm sæta refsingu fyrir að virða ekki gul flögg í tímatökunni í gær. Finninn Valtteri Bottas, liðsfélagi Hamilton hjá Mercedes, átti að byrja þriðji en fékk þriggja sæta refsingu fyrir það sama og Verstappen.

Hamilton studdi baráttu samkynhneigðra í Katar í með hjálmi sínum …
Hamilton studdi baráttu samkynhneigðra í Katar í með hjálmi sínum í dag. AFP

Verstappen átti þó frábæra byrjun í kappakstrinum og eftir u.þ.b. fimm hringi var hann orðinn annar. Því miður fyrir hann byrjaði Hamilton þó einnig mjög vel og Verstappen komst aldrei nálægt því að ná honum. Verstappen gerði þó vel og tryggði sér hraðasta hringinn sem gefur aukastig. Þess má einnig geta að þetta var fyrsti Formúlu 1 kappakstur sögunnar sem fram fer á þessari braut og á Hollendingurinn því brautarmetið.

Verstappen er ennþá efstur í heildarkeppninni en hann er með átta stiga forystu á Hamilton. Tvær keppnir eru eftir af tímabilinu og ljóst er að barátta þessara tveggja frábærru ökumanna mun halda áfram fram að síðustu keppni.

mbl.is