Verstappen meistari eftir ótrúlega dramatík

Max Verstappen kemur fyrstur í mark í dag.
Max Verstappen kemur fyrstur í mark í dag. AFP

Hollendingurinn Max Verstappen á Red Bull varð í dag heimsmeistari í Formúlu 1 í fyrsta skipti eftir ótrúlega baráttu við sjöfalda heimsmeistarann Lewis Hamilton á Mercedes í Abú Dabí kappakstrinum, lokamóti tímabilsins.

Verstappen og Hamilton voru jafnir af stigum fyrir kappaksturinn í dag og því ljóst að sá sem yrði fyrr í mark í dag yrði meistari.

Verstappen hóf kappaksturinn í fyrsta sæti eftir sigur í tímatökunni í gær en Hamilton var ekki lengi að taka fram úr Hollendingnum strax í upphafi. Hélt hann forystunni fram að síðasta hring, þegar Verstappen tók fram úr og tryggði sér sigurinn.

Hamilton náði fínu forskoti á Verstappen og virtist ætla að vinna öruggan sigur og sinn áttunda heimsmeistaratitil. Nicholas Latifi á Williams lenti hinsvegar í árekstri þegar fimm hringir voru eftir og í kjölfarið kom öryggisbílinn út.

Öryggisbílinn var á brautinni þangað til á lokahringnum, en vegna hans þurrkaðist forskot Hamilton út. Verstappen var á betri dekkjum á lokahringnum og tók fram úr Hamilton um miðjan hringinn.

Liðsmenn Mercedes voru allt annað en sáttir við dómara keppninnar, þar sem hringaðir bílar tóku fram úr öryggisbílnum með þeim afleiðingum að Verstappen var alveg upp við Hamilton þegar lokahringurinn fór af stað. Vildu þeir meina að nokkrir bílar ættu að vera á milli þeirra á lokahringnum, sem hefði nægt Hamilton til sigurs.

mbl.is