Hamilton breytir um nafn

Lewis Hamilton mun brátt bera nafnið Lewis Hamilton-Larbalestier.
Lewis Hamilton mun brátt bera nafnið Lewis Hamilton-Larbalestier. AFP

Aksturskappinn Lewis Hamilton, sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1, hefur gefið það út að hann vinni nú að því að breyta eftirnafni sínu á þann veg að eftirnafn móður hans bætist við.

Móðir hans heitir Carmen Larbalestier og býst Hamilton við því að von bráðar muni hann keppa undir nafninu Lewis Hamilton-Larbalestier.

„Ég er mjög stoltur af fjölskyldunöfnum mínum. Eftirnafn móður minnar er Larbalestier og ég er í þann mund að bæta því við mitt nafn.

Ég vil gjarna að nafn hennar lifi áfram ásamt Hamilton-nafninu. Ég skil ekki alveg hugmyndina á bakvið það að konan hætti að nota eftirnafn sitt þegar fólk giftist,“ sagði Hamilton í samtali við BBC Sport.

Foreldrar Hamiltons, sem er 37 ára gamall, skildu þegar hann var barnungur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert