Missir af fyrsta kappakstri ársins vegna veirunnar

Sebastian Vettel verður ekki með um helgina.
Sebastian Vettel verður ekki með um helgina. AFP

Þýski aksturskappinn Sebastian Vettel mun ekki geta tekið þátt í fyrsta kappakstri tímabilsins í Formúlu-1, sem fer fram í Barein næstkomandi sunnudag. Vettel greindist smitaður af kórónuveirunni.

Landi hans Nico Hulkenberg mun taka sæti hans og aka fyrir hönd Aston Martin.

Daniel Ricciardo, Ástralinn hjá McLaren, missti af síðasta æfingaakstrinum fyrir kappaksturinn í Barein eftir að hann smitaðist af kórónuveirunni.

Ricciardo fékk hins vegar neikvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi í dag og getur því keppt um helgina.

Vettel verður ekki með um helgina en annar kappakstur tímabilsins sem brátt fer í hönd fer fram þann 27. mars næstkomandi í Sádi-Arabíu. Skili hann neikvæðri niðurstöðu fyrir þann tíma getur Vettel tekið þátt þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert