Leclerc vann fyrstu keppni ársins

Charles Leclerc.
Charles Leclerc. AFP/Giuseppe Cacace

Fyrstu Formúlu 1 keppni ársins var að ljúka en það var Mónakóinn Charles Leclerc sem sigraði hana. Liðsfélagi hans hjá Ferrari, Spánverjinn Carlos Sainz kom annar í mark svo þetta var vægast sagt frábær helgi fyrir þennan fornfræga ítalska bílaframleiðanda.

Leclerc byrjaði á ráspól og ók frábærlega í dag. Heimsmeistarinn Max Verstappen byrjaði annar og Sainz þriðji. Þá var Mexíkóinn Sergio Pérez fjórði og sjöfaldi heimsmeistarinn Lewis Hamilton fimmti. Þannig var staðan enn þegar þrír hringir voru eftir af keppninni en þá breyttist hún í martröð fyrir Red Bull-liðið. Fyrst missti Verstappen allan kraft úr vélinni og missti hvern andstæðing sinn á fætur öðrum fram úr sér. Að lokum fór það svo að Hollendingurinn varð að hætta keppni og 18 stigin sem fást fyrir annað sæti urðu því að engu.

Örstuttu síðar snerist bíll Pérez á brautinni sem varð til þess að hann missti einnig af sínum stigum en 15 stig fást fyrir þriðja sætið. Það voru því fjölmörg stig sem urðu að engu fyrir Red Bull-liðið á augabragði á lokakafla keppninnar.

Pierre Gasly, ökumaður AlphaTauri náði ekki að ljúka keppni í …
Pierre Gasly, ökumaður AlphaTauri náði ekki að ljúka keppni í dag. AFP/Mazen Mahdi

Eftir erfiða helgi kom Lewis Hamilton því Mercedes-bíl sínum á verðlaunapall og liðsfélagi hans George Russell kom næstur á eftir honum. Daninn Kevin Magnussen ók frábærlega í endurkomu sinni í Formúluna og skilaði Haas-bílnum sínum í fimmta sæti. Þess má geta að Haas náði ekki í eitt stig allt síðasta tímabil en Magnussen tryggði liðinu 10 stig í dag.

Alfa Romeo-liðið gengur væntanlega sátt frá borði eftir helgina en Valtteri Bottas endaði í sjötta sæti og nýliðinn Zhou Guanyu í tíunda. Það sama verður ekki sagt um McLaren-liðið en þeir Daniel Ricciardo og Lando Norris enduðu í 14. og 15. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert