Heimsmeistarinn tryggði sér sigur í lokin

Max Verstappen á brautinni í kvöld.
Max Verstappen á brautinni í kvöld. AFP/Andrej Isakovic

Heimsmeistarinn Max Verstappen á Red Bull bar sigur úr býtum í Sádi-Arabíu kappakstrinum í Formúlu 1 í kvöld. Mótið var það annað í ár, en fyrsta mótið fór fram í Barein um síðustu helgi.

Verstappen tók fram úr Charles Leclerc á Ferrari á lokakaflanum. Leclerc, sem vann fyrstu keppnina, varð að gera sér annað sætið að góðu og liðsfélagi hans Carlos Sainz varð þriðji. Sergio Pérez, sem hóf kappaksturinn fremstur, endaði í fjórða sæti á Red Bull.

Lewis Hamilton, sigursælasti ökuþór heims undanfarin ár, þurfti að gera sér að góðu tíunda sætið og aðeins eitt stig í baráttunni um heimsmeistaratitilinn en hann ekur fyrir Mercedes.

Eftir keppnina eru Ferrari-mennirnir Charles Leclerc og Carlos Sainz efstir með 45 og 33 stig. Max Verstappen, sem féll úr leik í fyrstu keppni ársins, er í þriðja sæti með 25 stig og George Russell á Mercedes í fjórða sæti með 22 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert