Hamilton ætlar ekki að una skartgripabanni

Lewis Hamilton með alla skartgripi sem hann gat fundið til …
Lewis Hamilton með alla skartgripi sem hann gat fundið til á blaðamannafundi í gær. AFP/Chandan Kanna

Lewis Hamilton, aksturskappi hjá Mercedes í Formúlu-1, gefur lítið fyrir bann alþjóðasambands bifreiðaeigenda- og akstursíþróttafélaga, FIA, þar sem keppendum er meinað að vera með skartgripi, þar á meðal eyrnalokka, við keppni, og kveðst tilbúinn að sleppa því að keppa verði gerðar athugasemdir við lokka hans fyrir kappaksturinn í Miami um helgina.

Hamilton mætti á blaðamannafund og virtist hafa fundið til alla skartgripi sína í mótmælaskyni.

„Ég kom ekki fleiri skartgripum á mig í dag,“ sagði hann í léttum dúr. „Ég er með platínulokka þannig að þeir eru ekki segulmagnaðir. Þetta hefur aldrei verið öryggisatriði áður.

Ef þeir stöðva mig þá verður bara að hafa það. Við erum með með varaökumann sem er fyllilega tilbúinn fyrir helgina. Það er nóg um að vera í borginni hvort eð er. Hvað sem verður þá er ég alveg góður,“ bætti Hamilton við.

Í tilkynningu FIA um bannið sagði að það að vera með skartgripi á sér á meðan keppt er geti hindrað bæði læknishjálp og einnig greiningu og meðferð í kjölfar slyss. Skartgripir gætu fest í í lambhúshettu, hjálmi og búningi ökumanns.

„Að klæðast skartgripum, hvort sem um göt eða járnkeðjur er að ræða, er bannað á meðan keppni stendur og verður því athugað fyrir keppni,“ sagði í tilkynningunni.

„Mér líður nánast eins og þetta sé skref aftur á bak, ef við höfum í huga þau skref sem við höfum tekið fram á við í íþróttinni og þau mál sem við ættum frekar að einbeita okkur að.

Mér finnst sem við höfum tekið mörg góð skref áfram í íþróttinni. Þetta er svo smávægilegt. Ég hef verið í íþróttinni í 16 ár og verið með skartgripi í 16 ár.

Í bílnum er ég einungis með eyrnalokkana mína og nefhring, sem ég get ekki einu sinni fjarlægt. Mér virðist það óþarfi fyrir okkur að standa í þessum deilum,“ sagði Hamilton einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert