Verstappen hafði naumlega betur

Max Verstappen sigurreifur með verðlaunagripinn sem hann hlaut fyrir að …
Max Verstappen sigurreifur með verðlaunagripinn sem hann hlaut fyrir að vinna Miami-kappaksturinn. AFP/Brendan Smialowski

Max Verstappen á Red Bull reyndist hlutskarpastur í kappakstrinum í Miami í Formúlu-1 í nótt eftir að Charles Leclerc á Ferrari hafði gert sig líklegan til þess að taka fram úr á lokasprettinum.

Verstappen virtist vera að sigla öruggum sigri í höfn þegar öryggisbíll var sendur á brautina í kjölfar þess að Lando Norris á McLaren og Pierre Gasly á AlphaTauri skullu saman með þeim afleiðingum að Norris lenti í árekstri og gat ekki haldið áfram.

Við það þéttist hópurinn og Leclerc átti skyndilega möguleika á að ná Verstappen.

Leclerc, sem er efstur á tímabilinu eftir nokkra frækna sigra í kappökstrum þess, fór að narta á hæla Verstappens þegar tíu hringir voru eftir, gaf allt sitt til þess að minnka forskotið en varð að lokum að sætta sig við annað sætið og sigur Verstappen staðreynd.

Með sigrinum minnkaði Verstappen forskot Leclerc niður í 19 stig á tímabilinu.

mbl.is