„Okkar samband hefur aldrei verið betra“

Þeir aka fyrir McLaren í ár, f.v. Lando Norris og …
Þeir aka fyrir McLaren í ár, f.v. Lando Norris og t.h. Daniel Ricciardo. AFP

Zak Brown, framkvæmdastjóri McLaren liðsins í Formúlu 1, segir að samband hans og ökuþórsins Daniel Ricciardo hafi aldrei verið betra.

Brown sagði fyrr í mánuðinum að hvorki hann né liðið væri að ná þeim árangri sem þeir vonuðust eftir eftir slakan árangur Ástralans á yfirstandandi og síðasta tímabili.

Ricciardo á eitt ár eftir af samningi sínum hjá McLaren og framtíð hans er enn óráðin en Brown segir að þeir félagarnir eigi gott samband.

„Nei, alls ekki,“ sagði Brown aðspurður um hvort samband þeirra hafi súrnað eftir viðtalið fyrr í mánuðinum. „Við eigum gott samband og átum kvöldverð saman í Lundúnum fyrir tveimur vikum síðan.

„Við eigum góðar stundir saman og njótum þess að keppa saman svo samband okkar hefur aldrei verið betra,“ bætti Brown við fyrir Kanadíska kappaksturinn um síðustu helgi.

„Ég var spurður út í þetta og svaraði í hreinskilni. Ég held að Daniel hafi sagt það sama; við erum hérna til að reyna að skara fram úr. Við höfum átt frábærar helgar saman eins og í Monza, og svo nokkrar helgar sem enduðu með vonbrigðum. Ég held að við höfum ekki gefið ökumönnunum okkar bíl sem getur verið fremst reglulega, svo við þurfum að gera það.“

„Við eigum frábært samband, og ég svaraði bara spurningunni í hreinskilni og sagði að gengið gæti verið betra, en við ætlum að leggja mikið á okkur og sjá til þess að þeim gangi betur í framtíðinni,“ sagði Brown að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert