Kynþáttaníð í garð Hamiltons fordæmt

Lewis Hamilton.
Lewis Hamilton. AFP/Clive Mason

Nelson Piquet, fyrrverandi aksturskappi hjá Williams í Formúlu-1, hefur sætt harðri gagnrýni eftir að hann gerðist uppvís að kynþáttaníði í garð Lewis Hamiltons, núverandi aksturskappa hjá Mercedes, í hlaðvarpi á dögunum.

Piquet var þá að gagnrýna Hamilton fyrir hans þátt í því þegar Hamilton og Max Verstappen, ökuþór hjá Red Bull og tengdasonur Piquet, lentu í áreksti í Breska kappakstrinum á síðasta tímabili. Í gagnrýni sinni notaði hann n-orðið um Hamilton.

„Þetta snýst um meira en orðanotkun. Þessi forneskjulegi hugsunarháttur verður að breytast og á ekkert erindi í íþróttinni okkar.

Ég hef verið umkringdur svona viðhorfum og verið skotmark alla mína ævi. Það hefur gefist nægur tími til þess að læra. Það er kominn tími á aðgerðir,“ skrifaði Hamilton á twitteraðgangi sínum.

Orðanotkun sem einkennist af mismunun eða kynþáttaníði er óásættanleg í hvaða formi sem er og á ekkert pláss í samfélaginu. Lewis er ótrúlegur fulltrúi íþróttarinnar okkar og á skilið að honum sé sýnd virðing.

Þrotlaus vinna hans til þess að auka fjölbreytileika og þátttöku er góð lexía fyrir fjölda fólks og eitthvað sem við hjá F1 erum skuldbundin til þess að fylgja,“ sagði í yfirlýsingu frá Formúlu-1.

Lewis Hamilton, Jean Alesi og Nelson Piquet við jarðarför Niki …
Lewis Hamilton, Jean Alesi og Nelson Piquet við jarðarför Niki Lauda fyrir þremur árum. AFP/Joe Klamar

Piquet, sem er 69 ára gamall Brasilíumaður, varð heimsmeistari í Formúlu-1 árin 1981, 1983 og 1987.

Hann hefur áður komist í fréttirnar fyrir ljót og niðrandi ummæli.

Á meðan akstursferli Piquet stóð ýjaði hann til að mynda ítrekað að því að Ayrton Senna heitinn, keppinautur hans og landi, væri samkynhneigður og kallaði Senna reglulega „leigubílstjórann frá Sao Paulo“ í því skyni að gera lítið úr honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert