„Ég er að tapa allt of mörgum stigum“

Kappakstursliðið Ferrari átti slæman dag í Frakklandi í gær.
Kappakstursliðið Ferrari átti slæman dag í Frakklandi í gær. AFP/Eric Gaillard

Mónakóíski ökuþórinn Charles Leclerc var niðurlútur eftir afar slæman dag í franska kappakstrinum sem háður var á Circuit Paul Ricard-brautinni í Formúlu 1 í gær.

Leclerc, sem ekur fyrir Ferrari, datt snemma úr leik eftir að hafa keyrt á vegg á 18. hring. Mónakóinn byrjaði keppnina á ráspól og var í forystu fram að árekstrinum þegar hann tók of snarpa beygju og keyrði utan í dekkjavegg.

Þrátt fyrir að hafa sloppið ómeiddur frá slysinu gaf Leclerc frá sér sársaukafullt óp og augljóst var að ökumaðurinn var afar vonsvikinn með sjálfan sig en hann viðurkenndi eftir keppni að um eigin mistök væri að ræða. 

„Þetta er mér að kenna og ef ég held áfram að gera svona mistök þá á ég ekki skilið að vinna titilinn,“ sagði Leclerc. „Ég er að tapa allt of mörgum stigum, ég held þau hafi verið sjö í Imola, 25 hér og í hreinskilni sagt þá held ég að við höfum verið með sterkasta bílinn á brautinni í dag,“ bætti hann við í samtali við Sky Sports F1.

„Ef við töpum titlinum á 32 stigum í lok leiktíðar, þá veit ég hvar stigin töpuðust og það er óásættanlegt. Ég verð bara að komast upp á lagið með þetta.“

Max Verstapp­en, liðsmaður Red Bull, kom fyrstur í mark og leiðir á leiktíðinni en Hollendingurinn er með 63 stiga forskot á Leclerc í efsta sæti í keppni ökuþóra með 233 stig. Leclerc er með 170 stig og þar á eftir kemur Sergio Pérez í þriðja sætinu með 163 stig.

Dagurinn í gær var einkar góður fyrir keppnislið Mercedes þar sem Lewis Hamilton kom annar í mark í sínum þrjúhundraðasta Formúlu 1 kappakstri á ferlinum og George Russell, liðsfélagi hans, komst einnig á verðlaunapall en hann hafnaði í þriðja sæti.

Næsti kappaksturinn verður haldinn í Ungverjalandi sunnudaginn 31. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert