Perez sigurvegari í Singapúr þar til annað kemur í ljós

Mexíkóinn Sergio Perez fagnar sigri í Singapúr í dag.
Mexíkóinn Sergio Perez fagnar sigri í Singapúr í dag. AFP/Roslan Rahman

Ökuþórinn Sergio Perez sem keyrir fyrir Red Bull-liðið í Formúlu 1 vann kappaksturinn í Singapúr í kvöld. Perez tókst að halda aftur af Charles Leclerc sem byrjaði á ráspól en Mónakóinn kom engu að síður annar í mark.

Verið er að rannsaka hvort að Perez hafi brotið öryggisreglur og því er hann sigurvegari þangað til að annað kemur í ljós.

Heimsmeistarinn Max Verstappen hefði getað unnið annan heimsmeistaratitil sinn í röð með hagstæðum úrslitum í kvöld, en hann kom sjöundi í mark. Carlos Sainz, liðsfélagi Leclerc hjá Ferrari, komst á verðlaunpall, en hann endaði í þriðja sæti.

Kappaksturinum var frestað um klukkutíma vegna mikillar úrkomu. Sleipt var á akstursbrautinni jafnvel eftir að það stytti upp, en þá missti Leclerc snemma forystuna úr höndum sér er Perez geysti fram úr honum.

Verstappen getur unnið heimsmeistaratitilinn með sigri í Japan næsta sunnudag, en þá þarf hann að vona að Perez og Leclerc tapi stigum. Lewis Hamilton átti erfitt kvöld en hann kom níundi í mark.

mbl.is