Hamilton segir Red Bull-bílinn hraðari en Mercedes var nokkurn tímann

Lewis Hamilton.
Lewis Hamilton. AFP/Giuseppe Cacace

Lewis Hamilton, ökumaður Mercedes í Formúlu 1, segir bíl keppinauta liðsins, Red Bull, vera þann hraðasta sem hann hafi séð.

Red Bull hefur haft mikla yfirburði í fyrstu tveimur keppnum ársins og hafa ökumenn liðsins, Max Verstappen og Sergio Pérez, endað í tveimur efstu sætunum í þeim báðum.

Hamilton, sem er sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1, segir að Red Bull-bíllinn sé sá hraðasti sem hann hafi nokkurn tímann séð og að yfirburðir liðsins séu meiri en Mercedes nokkurn tímann hafði.

„Ég hef klárlega aldrei séð svona hraðan bíl. Þegar við vorum hraðir, vorum við mjög hraðir en alls ekki svona hraðir. Þetta er hraðasti bíll sem ég hef séð, sérstaklega ef þú berð hann saman við aðra bíla í ár.

Ég veit ekki hvernig en Verstappen tók framúr mér á ógnvænlegum hraða. Ég hafði ekki einu sinni fyrir því að reyna að verjast því ég vissi að það væri gífurlegur hraðamunur á okkur.“

Hamilton og Verstappen háðu mikið stríð um heimsmeistaratitilinn árið 2021 en að lokum var það Hollendingurinn Verstappen sem tryggði sér titilinn í síðustu beygjunni í lokakeppni tímabilsins. Í fyrra voru þó yfirburðir Verstappen miklir og í ár virðist það sama vera uppi á teningnum.

„Allir vilja sjá harða baráttu um titilinn en svona er þetta bara. Þetta er ekki mitt vandamál og ekki mér að kenna.

Við erum langt á eftir Red bull. Það er skrítið að sjá Ferrari á eftir okkur en það er jákvætt. Þetta verður upp og niður fyrstu þrjár keppnirnar en vonandi getum við bætt bílinn okkar sem allra fyrst til að minnka bilið upp í Aston Martin-bílana.“

Verstappen tekur fram úr Hamilton í kappakstrinum í Jeddah í …
Verstappen tekur fram úr Hamilton í kappakstrinum í Jeddah í Sádí Arabíu um helgina. AFP/Giuseppe Cacace.
mbl.is