Verstappen vann í rigningunni í Mónakó

Max Verstappen fagnar sigri í dag.
Max Verstappen fagnar sigri í dag. AFP/Jeff Pachoud

Hollenski ökuþórinn Max Verstappen vann Mónakó kappaksturinn nokkuð örugglega í dag. Í seinni hluta keppninnar í dag skall á rigningarbakki sem breytti gangi mála töluvert.

Verstappen, sem hóf keppnina í dag á ráspól, nýtti sér það að vera fremstur í ræsingu og leiddi hann frá fyrstu sekúndu kappakstursins til þeirrar síðustu.

Fernando Alonso, Aston Martin, endaði í öðru sæti og Esteban Ocon, Alpine, kom öllum á óvart og endaði í þriðja sæti.

Landarnir og liðsfélagarnir í Mercedes enduðu í 4. og 5. sæti. Lewis Hamilton kom í mark á undan George Russell.

Það skall á mikill rigningarbakki í keppninni í dag sem …
Það skall á mikill rigningarbakki í keppninni í dag sem ökuþórar áttu í vandræðum með. AFP/Andrej Isakovic

Í seinni hluta keppninnar skall á mikil rigning og kepptust ökumenn um að komast inn á þjónustusvæðið til að skipta yfir á regndekk. Carlos Sainz, Ferrari, réði ekki við rigninguna og fór hann úr fjórða sæti niður í það áttunda á stuttum tíma.

Max Verstappen leiðir í keppni ökuþóra en hann hefur nælt sér í 144 stig. Í öðru sæti er liðsfélagi hann hjá Red Bull Racing, Sergio Pérez, en hann er með 105 stig. Spánverjinn Fernando Alonso er í þriðja sæti með 93 stig.

Í keppni bílasmiða er Red Bull Racing sannfærandi í fyrsta sæti með 224 stig. Aston Martin er í öðru sæti með 102 stig og Mercedes er í þriðja sæti með 96 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert