Breski ökuþórinn George Russell, sem keyrir fyrir Mercedes, bar sigur úr býtum í Formúlu 1 kappakstrinum í Kanada í gærkvöld.
Russell var á ráspól og náði að halda ríkjandi heimsmeistaranum Max Verstappen fyrir aftan sig alla keppnina en hann hafnaði í öðru sæti.
Kimi Antonelli, liðsfélagi Russell, endaði í þriðja sæti en þetta er hans besti árangur í Formúlu 1 keppni.
Ástralinn Oscar Piastri, sem leiðir heimsmeistaramót ökuþóra, þurfti að sætta sig við fjórða sæti. Lando Norris, liðsfélagi Piastri, keyrði aftan á samherja sinn þegar hann reyndi að taka fram úr og þurfti því að hætta keppni.
Ferrari-mennirnir Charles Leclerc og Lewis Hamilton enduðu síðan í fimmta og sjötta sæti.