Búbbi bróðir benti á Winnie

BÆÐI lið hafa margreyndum miðvarðapörum á að skipa. Þeir Zoran Miljkovic og Hlynur Stefánsson binda Eyjavörnina saman og í vesturbæjarliðinu fara þeir Þormóður Egilsson og Skotinn David Winnie fyrir sterkri vörn. Winnie kom til liðs við KR þegar Íslandsmótið var hafið og hefur síðan vakið athygli fyrir framgöngu sína.
 Atli Eðvaldsson þjálfari segir að samvinna Winnies og Þormóðs hafi verið með miklum ágætum og þeir hafi náð að miðla bakvörðunum Bjarna Þorsteinssyni og Indriða Sigurðssyni mjög af reynslu sinni. "Indriði er aðeins sextán ára gamall og Bjarni rúmlega tvítugur," bendir hann á. "Það er því ómetanlegt fyrir þessa ungu og efnilegu leikmenn að leika með svona leiðtogum og á köflum er hrein unun að fylgjast með Winnie. Það kjaftar á honum hver tuska í leikjum, hann er sífellt að benda mönnum á hvað betur mætti fara og gefur aldrei tommu eftir í návígi."
 Atli viðurkennir að Winnie sé mikill happafengur og að stóri bróðir, Jóhannes Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, eða Búbbi eins og hann er gjarnan nefndur, hafi bent sér á hann, en Jóhannes er einmitt búsettur í Skotlandi. "Við sáum að það þyrfti einn reynslubolta í öftustu línu liðsins, einhvern leiðtoga við hliðina á Þormóði. Búbbi benti á Winnie og veðjaði þar svo sannarlega á réttan hest."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert