ÍR og Þróttur fallin í 1. deild

Nýliðarnir í Landssímadeildinni í ár, Þróttur og ÍR, féllu í dag aftur í fyrstu deild. Þetta varð ljóst að loknum fyrstu fjórum leikjum lokaumferðar Landssímadeildarinnar í dag en lokaleikurinn er á KR-vellinum klukkan 16 en þá berjast KR og ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn.

Þróttur sigraði Keflavík 1:0 með marki Ingvars Ólasonar en féll þrátt fyrir það. ÍR-ingar og Skagamenn skildu jafnir 1:1 en Bjarki Már Hafþórsson jafnaði metin fyrir ÍR eftir að Ragnar Hauksson hafði komið Skagamönnum yfir. Í Grindavík sigruðu heimamenn Fram 4:2 og tryggðu sér þar með enn einu sinni áframhaldandi sæti í efstu deild á síðustu stundu. Ásmundur Arnarson og Kristófer Sigurgeirsson komu Fram í tvígang yfir en Milan Stefán Jankovic, Grétar Hjartarson, Scott Ramsey og Þórarinn Ólafsson gerðu mörk Grindvíkinga. Á Ólafsfirði komust Valsmenn yfir með marki Ingólfs Ingólfssonar en Bergur Jacobson og Páll Guðmundsson tryggðu heimamönnum sigur á lokakaflanum. Þar með sluppu Valsmenn við fall en það mátti þó ekki tæpara standa því það var markatalan sem bjargaði þeim að þessu sinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert