Íslendingar ósigraðir í Evrópukeppni landsliða

Lárus Orri Sigurðsson reynir að stöðva úkraínska leikmanninn Serhíj Rebrov …
Lárus Orri Sigurðsson reynir að stöðva úkraínska leikmanninn Serhíj Rebrov í Kænugarði í dag. Reuters

Rétt í þessu var flautað til leiksloka í leik Úkraínu og Íslands á Olympiysky leikvanginum í Kænugarði og urðu úrslit leiksins 1:1. Íslendingar hafa ekki enn tapað leik í 4. riðli EM og eru með níu stig. Allir leikmenn íslenska landsliðsins léku frábærlega í dag og börðust eins og ljón allan leikinn. Úkraínumenn sóttu meira en náðu sjaldan að ógna marki íslenska liðsins. Þeir komust þó yfir á 58. mínútu en sjö mínútum síðar jafnaði Lárus Orri Sigurðsson fyrir Íslendinga.

Íslenska liðið lék sterkan varnarleik í dag og greinilegt var að leikmenn komu vel stemmdir til leiks. Leikaðferð Guðjóns Þórðarsonar, landsliðþjálfara virtist ganga upp og staðan í leikhléi var 0:0. Úkraínumenn náðu aldrei að ógna marki Íslendinga verulega í fyrri hálfleik enda var vörn íslenska liðsins mjög þétt. Heimamenn mættu mjög ákveðnir til leiks í upphafi síðari hálfleiks og þegar þrettán mínútur voru liðnar af hálfleiknum komust þeir yfir þegar varnarmaðurin Vashchuk komst í gegnum íslensku vörnina og skoraði með góðu skoti í vinstra hornið. En Íslendingar gáfust ekki upp og sjö mínútum síðar fengu þeir hornspyrnu að marki Úkraínumanna. Boltinn barst út úr vítateignum eftir hornspyrnuna þar sem Þórður Guðjónsson tók hann viðstöðulaust á lofti. Hörkuskot Þórðar fór í Lárus Orra Sigurðsson, sem var inni á vítateig Úkraínu, og hann stýrði boltanum í markið. Það sem eftir lifði leiks sóttu Úkraínumenn án afláts en gekk afar illa að finna smugu á íslenska varnarmúrnum. Guðjón gerði tvær breytingar á liðinu á lokamínútunum í því augnamiði að þétta vörnina enn frekar. Íslendingar fögnuðu ákaft er flautað var til leiksloka enda úrslitin aldeilis glæsileg, 1:1 jafntefli á heimavelli efsta liðsins í riðlinum. Úrslit leiksins verða að teljast sanngjörn. Þótt Úkraínumenn hafi sótt meira náðu þeir ekki að ógna marki íslenska liðsins að ráði. Sú leikaðferð sem Guðjón Þórðarson lagði upp fyrir leikinn gekk upp og árangurinn varð eftir því. Ekki er hægt að nefna einhvern einn leikmann öðrum fremur í íslenska liðinu, því allir stóðu sig frábærlega. Eljusemi og einbeiting íslenska liðsins, ásamt öguðum og yfirveguðum leik, tryggði liðinu óvænt stig í Kænugarði. Íslendingar eru nú í öðru sæti riðilsins með níu stig en Úkraínumenn eru efstir með ellefu. Frakkar geta komist upp fyrir Íslendinga ef þeir ná stigi eða stigum gegn Armenum í París í kvöld. Rússar sigruðu Andorramenn með sex mörkum gegn einu í Moskvu í dag og eru komnir upp í fjórða sæti riðilsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert