Draumur minn síðan ég var lítill strákur

Nafnarnir Grétar Rafn Steinsson úr ÍA og Grétar Hjartarson hjá Grindavík eru tveir af fimm nýliðum sem eru í íslenska landsliðshópnum sem mætir Brasilíumönnum í nótt. Grétar Rafn er jafnframt yngsti leikmaðurinn í íslenska liðinu en hann hélt upp á 20 ára afmæli sitt í janúarmánuði.

Það er óhætt að segja að maður sé að slá tvær flugur í einu höggi. Í fyrsta lagi að vera kominn í A-landsliðið sem hefur verið draumur minn frá því ég var lítill strákur og síðan að spila á móti Brasilíu sem hefur á að skipa einu besta landsliði heims," sagði Grétar Rafn í samtali við Morgunblaðið.

"Það er rosaleg upplifun að fá að taka þátt í svona leik. Ég setti mér takmark þegar ég var yngri að spila með öllum landsliðum Íslands í knattspyrnu og nú er sá draumur vonandi að rætast töluvert fyrr en ég hafði reiknað með. Mig óraði ekki fyrir því að ég mundi fá að taka þátt í leik á móti Brasilíumönnum í mínum fyrsta landsleik en þegar Ísland mætti Brasilíu árið 1994 sagði ég við sjálfan mig, mikið væri gaman að fá að spila á móti Brasilíu. Ég neita því ekki að það tók mig töluverða stund að átta mig á hlutunum þegar mér var tilkynnt að ég hefði verið valinn í landsliðið fyrir leikinn vð Brasilíumenn," segir Grétar Rafn.

Grétar Rafn er hvergi banginn fyrir leikinn við Brasilíu. "Ég veit að það er ekki mikil trú heima fyrir á liðinu sem mætir Brasilíu en það er mikill hugur í okkur strákunum. Það eru margir leikmenn í liðinu sem eru að stíga sín fyrstu skref og vilja sýna sig og sanna. Ef við ætlum okkur að eiga möguleika á að vera inni í myndinni hvað landsliðið varðar þá verðum við að standa okkur í leiknum. Við viljum sýna fólkinu heima á Íslandi að liðið er alls ekki lélegt þó í það vanti mjög góða leikmenn og ef ég fæ tækifæri í leiknum, sem ég vonast svo sannarlega eftir, þá mun ég gefa mig allan í leikinn. Óli Þórðar þjálfari minn hjá ÍA hefur kennt mér að bera ekki virðingu fyrir einum eða neinum og ég ætla að hafa orð hans vel á bakvið eyrað í leiknum. Auðvitað verður leikurinn erfiður en með mikilli baráttu, skynsemi og samstöðu eigum við vel að geta staðið uppi í hárinu á Brasilíumönnunum. Þeir vanmeta okkur alveg örugglega og það ætlum við að færa okkur í nyt."

Grétar Rafn sló í gegn með Íslandsmeisturum ÍA á síðustu leiktíð og þessi ungi miðjumaður lét töluvert að sér kveða á sínu fyrsta alvöruári með meistaraflokki. En stefnir hann ekki á að komast í atvinnumennskuna eins og fleiri ungir og efnilegir leikmenn?

"Ég ætla mér að komast í atvinnumennskuna. Ég fékk mikla reynslu með ÍA í fyrra og núna bætist við þessa reynslu að fá að kynnast því að vera í A-landsliðinu. Ég er búinn að leika með öllum yngri landsliðunum og leika með ÍA í Evrópukeppninni svo ég er kominn vel á veg í undirbúningi fyrir atvinnumennskuna. Það eru ýmsar þreifingar í gangi og vonandi gerist eitthvað í mínum málum þegar líður á árið."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert