Brasilía tók íslenska landsliðið í kennslustund

Árni Gautur Arason hafði mikið að gera í íslenska markinu. ...
Árni Gautur Arason hafði mikið að gera í íslenska markinu. Hér er það Kaká sem reynir að koma knettinum framhjá honum og Sævari Gíslasyni. AP
Íslendingar töpuðu fyrir Brasilíumönnum, 6:1, í vináttulandsleik í knattspyrnu sem háður var í nótt að íslenskum tíma í borginni Cuiabá í Brasilíu. 50.000 áhorfendur sáu sambastrákana sína taka ungt og reynslulítið íslenskt lið í kennslustund í íþróttinni og mátti íslenska liðið þakka fyrir að hafa ekki tapað stærra því bæði varði Árni Gautur Arason oft meistaralega í markinu auk þess sem Brasilíumenn áttu þrjú skot sem rötuðu í markstangirnar. Ljósi punkturinn í leik íslensku strákanna var ágæt frammistaða þeirra síðustu 20 mínúturnar og fimmtán mínútum fyrir leikslok skoraði Skagamaðurinn Grétar Rafn Steinsson eina mark íslenska liðsins og það í sínum fyrsta A-landsleik. Grétar fékk knöttinn út á hægri kant. Hann lék skemmtilega á einn varnarmann Brasilíu og skoraði með föstu, hnitmiðuðu vinstrifótarskoti. Fyrirliðinn Anderson Polgar skoraði tvö af mörkum Brasilíu og þeir Klebeson, Kaká, Gilbero Silva og Edilson sáu um að skora hin fjögur mörkin. „Ég held að ég hafi aldrei haft eins mikið að gera í markinu og eins og úrslitin gefa til kynna voru yfirburðir Brasilíumannanna mjög miklir. Við vissum það fyrir að við þyrftum að eiga algjöran toppleik til að geta sloppið sæmilega frá úrslitunum en það verður bara að segjast eins og er að Brassarnir sýndu stórkostleg tilþrif og hreinlega pökkuðu okkur saman," sagði Árni Gautur Arason, markvörður og fyrirliði íslenska landsliðsins, við blaðamann Morgunblaðsins eftir leikinn. Lið Íslands: Árni Gautur Arason (Ólafur Þór Gunnarsson 84.) - Sævar þór Gíslason (Guðmundur Steinarsson 84.), Gunnlaugur Jónsson, Ólafur Örn Bjarnason, Hjálmar Jónsson - Baldur Aðalsteinsson, Þórhallur Dan Jóhannsson (Þorvaldur Makan Sigbjörnsson 58.), Ólafur Stígsson, Einar Þór Daníelsson (Grétar Rafn Steinsson 58.), Haukur Ingi Guðnason, Grétar Hjartarson (Sigurvin Ólafsson 64.). Guðmundur Hilmarsson skrifar frá Brasilíu.
mbl.is