Kemur Liverpool til Íslands næsta sumar?

Liverpoolklúbburinn á Íslandi og KR-Sport vinna að því að fá enska knattspyrnufélagið Liverpool hingað til lands næsta sumar, í tilefni af 10 ára afmæli klúbbsins og því að þá verða 40 ár liðin frá viðureign KR og Liverpool, sem var fyrsti Evrópuleikur beggja félaganna.

Í fréttatilkynningu frá Liverpoolklúbbnum á Íslandi segir að klúbburinn og KR-Sport hafi rætt við forsvarsmenn Liverpool um málið um fyrri helgi og niðurstaðan hafi verið mjög jákvæð.

"Ennþá er þó nokkuð langt í land áður en hægt verður að fastsetja eitthvað í þessu sambandi. Til greina kemur hjá Liverpool FC að leika í N-Ameríku á næsta undirbúningstímabili, og ef af því verður mun liðið ekki leika æfingaleik á Íslandi. Menn eru þó almennt vongóðir um að af Íslandsferð geti orðið og mun mál þetta skýrast í byrjun ársins 2004, en ljóst er að ansi margir hlutir þurfa að ganga upp," segir í tilkynningu klúbbsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert