Búlgarar komnir í 3:2 gegn Íslandi í Sofia

Hermann Hreiðarsson kom Íslandi í 2:0.
Hermann Hreiðarsson kom Íslandi í 2:0. Morgunblaðið/Árni Torfason
Búlgarar hafa náð forystunni gegn Íslandi í Sofia, 3:2. Iliev skoraði jöfnunarmarkið á 69. mínútu leiksins, 2:2, og Martin Petrov skoraði beint úr aukaspyrnu á 85. mínútu, 3:2. Grétar Rafn Steinsson og Hermann Hreiðarsson komu Íslandi í 2:0. Grétar Rafn skoraði á 7. mínútu og Hermann á 16. mínútu. Dimitar Berbatov minnkaði muninn í 2:1 á 21. mínútu.

89. mín.: Heiðar Helguson fékk gula spjaldið fyrir brot.

85. mín.: Martin Petrov kom Búlgörum yfir, 3:2, með skoti beint úr aukaspyrnu af 20 metra færi.

85. mín.: Indriði Sigurðsson fékk gula spjaldið fyrir að sparka boltanum í burtu eftir brot.

84. mín.: Árni Gautur Arason varði vel hörkuskot frá Martin Petrov sem var rétt innan vítateigs Ísland, hægra megin. 83. mín.: Árni Gautur Arason hirti boltann glæsilega af tánum á Stilian Petrov sem var einn gegn honum á markteig Íslands.

79. mín.: Lazarov komst í gott færi í vítateig Íslands en Árni Gautur Arason varði skot hans mjög vel.

78. mín.: Hermann Hreiðarsson fékk gula spjaldið fyrir mótmæli.

75. mín.: Grétar Rafn Steinsson renndi boltanum á Eið Smára Guðjohnsen sem var í góðu færi á vítateigslínu Búlgara en skaut rétt framhjá markinu.

75. mín.: Arnar Þór Viðarsson kom inná fyrir Kára Árnason.

71. mín.: Mark var dæmt af Íslandi. Eiður Smári Guðjohnsen komst framhjá varnarmanni og sendi á Heiðar Helguson sem skorar en dæmt var brot á Eið Smára.

69. mín.: 2:2. Iliev fékk boltann um 20 metra frá marki, lék að vítateignum og skoraði með föstu skoti í hægra markhornið niðri.

67. mín.: Grétar Rafn Steinsson náði boltann af varnarmanni og sendi á Heiðar Helguson hægra megin í vítateignum. Hann skaut úr þröngu færi og markvörðurinn náði að verja.

63. mín.: Eiður Smári Guðjohnsen sneri glæsilega á varnarmann hægra megin í vítateig Búlgara, lék inn í teiginn og á hörkuskot. Markvörður Búlgara varði naumlega, tveir Íslendingar voru í dauðafæri en náðu ekki að nýta sér frákastið.

60. mín.: Augljósri vítaspyrnu var sleppt á Búlgara. Eiður Smári Guðjohnsen tók aukaspyrnu og sendi inní vítateiginn. Kári Árnason var í góðu færi til að skalla á markið rétt utan markteigs en var rifinn niður af varnarmanni. Tyrkneski dómarinn dæmdi ekkert.

55. mín.: Enn eitt færi Íslands. Heiðar Helguson komst innfyrir vörn Búlgara, þegar hann komst inn í sendingu á miðjum velli, komst inn í vítateiginn vinstra megin, með varnarmann við hlið sér, en markvörðurinn varði skot hans í horn.

46. mín.: Þegar 50 sekúndur voru liðnar af síðari hálfleik fékk Ísland sitt þriðja algjöra dauðafæri í leiknum. Heiðar Helguson fékk sendingu innfyrir vörn Búlgara frá Grétari Rafni Steinssyni og var aleinn gegn markverði í vítateignum en skaut framhjá.

45. mín.: Brynjar Björn Gunnarsson fékk gula spjaldið fyrir brot á síðustu andartökum fyrri hálfleiks.

37. mín.: Ísland fékk sannkallað dauðafæri til að skora þriðja markið. Eftir sendingu Stefáns Gíslasonar fyrir markið skallaði Heiðar Helguson boltann á Hermann Hreiðarsson sem var aleinn á miðjum markteig Búlgara en skallaði framhjá!

36. mín.: Búlgarar fengu aftur dauðafæri til að jafna metin. Gargarov skaut rétt utan markteigs en hárfínt framhjá íslenska markinu.

33. mín.: Martin Petrov átti hörkuskot að marki Íslands af 20 metra færi og boltinn fór í utanverða stöngina.

23. mín.: Búlgarar fengu dauðafæri til að jafna metin. Lazarov var kominn einn gegn Árna Gauti Arasyni sem hirti boltann af honum á glæsilegan hátt á markteig.

21. mín.: 1:2. Íslenska vörnin opnaðist illa, Martin Petrov komst að endamörkum vinstra megin, inn við markteig, og renndi boltanum fyrir markið á Dimitar Berbatov sem skoraði auðveldlega af markteig.

16. mín.: 0:2. Eiður Smári tók aukaspyrnu, hægra megin við vítateig Búlgara, og sendi inn að markinu. Þar kom Hermann Hreiðarsson á ferðinni og skoraði með hörkuskalla.

13. mín.: Algjört dauðafæri Íslands. Heiðar Helguson fékk sendingu upp hægri kantinn og sendi fyrir markið. Eiður Smári Guðjohnsen fékk boltann í dauðafæri á markteig en skaut yfir!

9. mín.: 0:1. Grétar Rafn Steinsson sendi boltann fyrir mark Búlgara frá hægri. Varnarmaður sem fékk boltann utan vítateigs ætlaði að stýra honum með brjóstkassanum til markvarðarins en Grétar var snöggur til, komst inn í sendinguna og skoraði.

7. mín.: Ísland fékk fyrsta marktækifæri leiksins. Eftir laglega sókn fékk Eiður Smári Guðjohnsen sendingu frá Stefáni Gíslasyni, lék inn í vítateiginn vinstra megin en skaut yfir markið.

Lið Íslands: Árni Gautur Arason - Kristján Örn Sigurðsson, Auðun Helgason, Hermann Hreiðarsson, Indriði Sigurðsson - Grétar Rafn Steinsson, Brynjar Björn Gunnarsson, Eiður Smári Guðjohnsen, Stefán Gíslason, Kári Árnason - Heiðar Helguson.

mbl.is