Pólverjar lögðu Íslendinga í Varsjá

Pólverjar unnu Íslendinga, 3:2, í vináttulandsleik í knattspyrnu karla í Varsjá í dag. Ísland var yfir í hálfleik, 2:1. Kristján Örn Sigurðsson og Hannes Þ. Sigurðsson skoruðu mörk Íslands á 15. og 38. mínútu.

Jacek Krzynowek skoraði fyrsta mark Pólverja á 25. mínútu en Baszczynski á 56. mínútu og Smolarek á 63. mínútu bættu síðan mörkum við. Íslenska landsliðið lék á köflum í fyrri hálfleik ágætlega en í þeim síðari voru Pólverjar mun betri og unnu fyrir vikið verðskuldaðan sigur. Tveir leikmenn íslenska landsliðsins léku sinn fyrsta landsleik, Sölvi Geir Ottesen sem lék leikinn frá upphafi til enda og Daði Lárusson, markvörður, en hann kom inn á fyrir Kristján Finnbogason þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Aðrar skiptingar í íslenska landsliðinu: Arnar Þór Viðarsson inn á fyrir Brynjar Björn Gunnarsson á 71. mínútu, Veigar Páll Gunnarsson inn á fyrir Gylfa Einarsson á 73. mínútu, Bjarni Ólafur Eiríksson inn á fyrir Auðun Helgason á 75. mínútu, Tryggvi Guðmundsson inn á fyrir Hannes Þ. Sigurðsson á 82. mínútu og Helgi Valur Daníelsson inn á fyrir Kára Árnason á 82. mínútu. Hannes Þ. Sigurðsson fékk gult spjald á 61. mínútu. Mark hans var jafnfram fyrsta mark hans fyrir íslenska landsliðið en þetta var aðeins annar landsleikur Hannesar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert