Sölvi góður í sigurleik Djurgården

Sölvi Geir Ottesen fékk mjög góða dóma fyrir leik sinn með Djurgården þegar liðið sigraði Malmö, 1:0, í ausandi rigningu á heimavelli sínum í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Sölvi lék allan leikinn í stöðu hægri bakvarðar og hann átti stóran þátt í sigurmarkinu. Skalla hans var bjargað af marklínu en félagi Sölva, Jones Kusi Asare, náði frákastinu og skoraði sigurmarkið á 69. mínútu leiksins.

Sigurður Jónsson, þjálfari Djurgården, var ánægður með sigur sinna manna en með sigrinum tyllti Djurgården sér á toppinn þegar keppni í deildinni er hálfnuð. Liðið hélt þó ekki toppsætinu nema í einn sólarhring því Halmstad tók forystuna með sigri á Örebro í gær. Halmstad hefur 24 stig, Djurgården 23 og meistararnir í Elfsborg hafa 22.

"Nú þurfum við bara að endurtaka leikinn þegar við mætum Malmö eftir tíu daga," sagði Sigurður í samtali við sænska fjölmiðla eftir leikinn en Djurgården sækir Malmö heim í fyrsta leik sínum í seinni umferðinni.

"Þetta var enginn glansleikur af okkar hálfu en ég verð að hrósa leikmönnum mínum fyrir mikla baráttu. Við höfum átt í erfiðleikum að undanförnu þar sem margir leikmenn hafa verið meiddir en þeir eru óðum að snúa til baka eftir þau," sagði Sigurður, sem tók við þjálfun Djurgården fyrir tímabilið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert