Ljótur skellur Íslands í Liechtenstein

Byrjunarliðið sem lék gegn Lettum á laugardaginn.
Byrjunarliðið sem lék gegn Lettum á laugardaginn. Árni Torfason

Íslenska landsliðið í knattspyrnu beið í kvöld einn versta ósigur sinn frá upphafi þegar það steinlá fyrir Liechtenstein í Vaduz, 3:0, í undankeppni EM. Staðan var 1:0 í hálfleik og heimamenn frá smáríkinu bættu við tveimur mörkum seint í leiknum. Þeir eru nú komnir með 7 stig, aðeins einu minna en Ísland sem er með 8 stig í næstneðsta sæti riðilsins.

Mario Frick skoraði á 29. mínútu og varamaðurinn Thomas Beck bætti við mörkum á 80. og 82. mínútu.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

87. Martin Telser fær gult spjald fyrir að handleika boltann rétt utan vítateigs Liechtenstein, þegar Eiður Smári reynir að lyfta boltanum framhjá honum. Ísland fær aukaspyrnu á vænlegum stað, Eiður Smári tekur hana en skýtur yfir markið.

86. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson kemur inná fyrir Brynjar Björn Gunnarsson.

85. Kristján Örn Sigurðsson reynir skot frá vítateig en hátt yfir mark heimamanna.

82. 3:0. Liechtenstein fær hornspyrnu frá hægri og eftir eina sendingu er boltanum rúllað út að vítateigshorni þar sem Thomas Beck þrumar honum viðstöðulaust, með stórglæsilegu skoti uppí markvinkilinn nær. Versta útreið Íslands í sögunni í uppsiglingu.

80. 2:0. Peter Jehle markvörður Liechtenstein með langt útspark, botlinn lendir einu sinni fyrir framan vítateig Íslands og Thomas Beck nær síðan að fleyta honum viðstöðulaust yfir Árna Gaut og í markið.

76. Helgi Sigurðsson fær sendingu frá Eiði Smára inní vítateiginn hægra megin en skýtur yfir markið úr erfiðri stöðu.

75. Eiður Smári Guðjohnsen fær gula spjaldið fyrir brot.

72. Helgi Sigurðsson kemur inná fyrir Gunnar Heiðar Þorvaldsson.

71. Eiður Smári kemst einn í gegnum vörnina eftir sendingu frá Arnari Þór Viðarssyni, Jehle kemur útá móti og nær að trufla Eið sem missir af boltanum og að lokum kemur Jehle boltanum í innkast.

67. Emil Hallfreðsson með hættulega aukaspyrnu innað marki Liechtenstein frá hliðarlínu hægra megin. Ármann Smári er í góðu færi á markteig en nær illa til boltans og potar honum beint í fangið á Jehle markverði.

62. Ármann Smári með skalla af markteig eftir sendingu Brynjars Björns frá endamörkum hægra megin en beint á Jehle markvörð.

58. Ármann Smári Björnsson kemur inná fyrir Jóhannes Karl Guðjónsson.

55. Liechtenstein með aukaspyrnu á vænlegum stað, um 20 m frá marki Íslands, fyrir miðju, en Burgmeier á skot yfir markið.

46. Jóhannes Karl Guðjónsson með skot að marki úr aukaspyrnu af 25 m færi en rétt yfir markið. Engar breytingar hafa verið gerðar á liði Íslands.

Danir eru 2:0 yfir í hálfleik gegn Lettum. Jon Dahl Tomasson skoraði á 7. mínútu og Ulrik Laursen á 27. mínútu. Svíar eru komnir yfir gegn Norður-Írum, 1:0, með marki frá Olof Mellberg en sá leikur hófst kl.18.30.

45+1 Flautað til leikhlés og Liechtenstein er yfir, 1:0, sem er nokkuð verðskuldað, enda þótt Ísland hafi fengið tvö góð færi til að jafna metin.

42. Benjamin Fischer kemst innfyrir vörn Íslands, hægra megin, og á skot frá vítateigshorni sem Árni Gautur ver vel í horn. Eftir hornspyrnuna ná Liechtensteinar skoti en framhjá markinu.

38. Ragnar Sigurðsson vinnur hörkutæklingu rétt fyrir framan miðju, brunar síðan upp völlinn og þrumar af 35 m færi, og Jehle má hafa sig við til að verja í markhorninu niðri.

37. Gunnar Heiðar í dauðafæri hægra megin í vítateignum, eftir sendingu Brynjars Björns. Hann tekur einni snertingu of mikið og Jehle markvörður nær að kasta sér fyrir hann og verja.

34. Gunnar Heiðar Þorvaldsson með skot af 20 m færi en yfir mark Liechtenstein.

32. Raphael Rohrer reynir skot af 30 m færi, í íslenskan varnarmann og afturfyrir, en heimamönnum er þó neitað um hornspyrnu!

30. Dauðafæri Íslands eftir fallegt spil. Eiður Smári Guðjohnsen skallar boltann innfyrir á Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem leggur boltann aftur fyrir fætur Eiðs sem er einn gegn Jehle markverði og reynir að lyfta boltanum framhjá honum en Jehle nær að verja.

28. 1:0. Burgmeier sendir boltann fyrir mark Íslands frá vinstri, með jörðu, og Mario Frick skorar með viðstöðulausu skoti rétt innan vítateigs.

27. Fyrsta markskot Íslands. Eftir aukaspyrnu Jóhannesar Karls Guðjónssonar frá hægri er skallað frá marki, Ívar Ingimarsson tekur boltann viðstöðulaust á vítateigslínu en skýtur hátt yfir mark Liechtenstein.

19. Raphael Rohrer fellur í vítateig Íslands eftir samskipti við Ragnar Sigurðsson en dómarinn telur að ekki hafi verið um brot að ræða.

15. Liechtenstein byrjaði leikinn betur og setti nokkra pressu á íslenska liðið fyrstu 10 mínúturnar. Ísland hefur smám saman náð betri tökum á leiknum en ekki náð að ógna marki heimamanna enn sem komið er.

14. Danir eru komnir yfir gegn Lettum, 1:0, í riðli Íslands og hinn íslenskættaði Jon Dahl Tomasson skoraði enn eitt markið fyrir landslið Dana.

5. Burgmeier með hörkuskot að marki Íslands af rúmlega 20 m færi og Árni Gautur Arason þarf að taka á til að verja í vinstra markhorninu niðri.

1. Flautað hefur verið til leiks við góðar aðstæður í Vaduz. Milt veður og tæplega 20 stiga hiti.

Fyrri leikur þjóðanna á Laugardalsvellinum í júní endaði 1:1. Brynjar Björn Gunnarsson skoraði mark Íslands.

Byrjunarliðið er þannig skipað en leikkerfið er 4:3:3:
Markvörður: Árni Gautur Arason
Hægri bakvörður: Kristján Örn Sigurðsson
Vinstri bakvörður: Hermann Hreiðarsson
Miðverðir: Ívar Ingimarsson og Ragnar Sigurðsson
Tengiliðir: Arnar Þór Viðarsson, Brynjar Björn Gunnarsson og Jóhannes Karl Guðjónsson
Sóknarmenn: Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Eiður Smári Guðjohnsen, fyrirliði og Emil Hallfreðsson.
Varamenn: Daði Lárusson, Helgi Sigurðsson, Indriði Sigurðsson, Ólafur Örn Bjarnason, Ólafur Ingi Skúlason, Ármann Smári Björnsson, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson.

mbl.is