Íslendingar skoruðu síðast í Danmörku 1974

Veigar Páll Gunnarsson og Hermann Hreiðarsson á fullri ferð á …
Veigar Páll Gunnarsson og Hermann Hreiðarsson á fullri ferð á æfingu á Parken í gær. Matthías Árni Ingimarsson

Íslenska landsliðinu í knattspyrnu hefur ekki tekist að skora mark gegn Dönum á þeirra heimavelli frá árinu 1974. Þá skoraði Matthías Hallgrímsson mark Íslendinga í naumum ósigri, 1:2, en frá þeim tíma hafa Íslendingar sótt Dani þrívegis heim, án þess að ná að skora.

Leikurinn í kvöld er 20. viðureign þjóðanna frá upphafi og við Íslendingar bíðum enn eftir fyrsta sigrinum. Fjórum sinnum hafa þjóðirnar gert jafntefli, þar af þrívegis 0:0, en Danir hafa unnið 15 sinnum. Þar af tvisvar með miklum yfirburðum, þeir unnu 14:2 árið 1967 eins og seint gleymist, og svo 6:0 síðast þegar þjóðirnar mættust í Danmörku, haustið 2001.

Leikir Íslands og Danmerkur hafa farið sem hér segir:

1. Ísland - Danmörk, 0:3, á Melavellinum 1946. Fyrsti landsleikur Íslands frá upphafi.

2. Danmörk - Ísland, 5:1, í Árósum 1949. Halldór Halldórsson skoraði mark Íslands.

3. Danmörk - Ísland, 4:0, í Kaupmannahöfn 1953.

4. Ísland - Danmörk, 0:4, á Melavellinum 1955.

5. Ísland - Danmörk, 2:6, á Laugardalsvellinum 1957. Ríkharður Jónsson og Þórður Þórðarson skoruðu mörk Íslands.

6. Ísland - Danmörk, 2:4, á Laugardalsvellinum í forkeppni Ólympíuleikanna, 1959. Sveinn Jónsson og Þórólfur Beck skoruðu mörk Íslands.

7. Danmörk - Ísland, 1:1, í Kaupmannahöfn í forkeppni Ólympíuleikanna 1959. Sveinn Teitsson skoraði fyrir Ísland og Danir jöfnuðu á síðustu stundu.

8. Ísland - Danmörk, 1:3, á Laugardalsvellinum 1965. Baldvin Baldvinsson skoraði mark Íslands.

9. Danmörk - Ísland, 14:2, í Kaupmannahöfn 1967. Helgi Númason og Hermann Gunnarsson skoruðu mörk Íslands.

10. Ísland - Danmörk, 0:0, á Laugardalsvellinum 1970.

11. Ísland - Danmörk, 2:5, á Laugardalsvellinum 1972. Guðgeir Leifsson og Eyleifur Hafsteinsson skoruðu mörk Íslands.

12. Danmörk - Ísland, 2:1, í Álaborg 1974. Matthías Hallgrímsson skoraði mark Íslands.

13. Ísland - Danmörk, 0:0, á Laugardalsvellinum 1978.

14. Danmörk - Ísland, 3:0, í Kaupmannahöfn 1981.

15. Danmörk - Ísland, 1:0, í Kaupmannahöfn 1988.

16. Ísland - Danmörk, 0:0, á Laugardalsvellinum 1991.

17. Ísland - Danmörk, 1:2, á Laugardalsvellinum í undankeppni HM 2000. Eyjólfur Sverrisson skoraði mark Íslands.

18. Danmörk - Ísland, 6:0, í Kaupmannahöfn í undankeppni HM 2001.

19. Ísland - Danmörk, 0:2, á Laugardalsvellinum í undankeppni EM 2006.

mbl.is

Bloggað um fréttina