Teitur ráðinn til Vancouver Whitecaps

Teitur Þórðarson hefur nú verið ráðinn þjálfari Vancouver Whitecaps í ...
Teitur Þórðarson hefur nú verið ráðinn þjálfari Vancouver Whitecaps í Kanada. Kristinn Ingvarsson

Teitur Þórðarson var í gærkvöld ráðinn þjálfari kanadíska knattspyrnuliðsins Vancouver Whitecaps til næstu tveggja ára. Liðið leikur í sameiginlegri deildakeppni Kanada og Bandaríkjanna, USL-deildinni, er þar í næstefstu deild, og stefnir á að spila í MLS-deildinni, úrvalsdeild Norður-Ameríku, frá og með 2011. Óhætt er að segja að Teitur leggi land undir fót því Vancouver er á vesturströnd Kanada, við Kyrrahafið, og er í sama tímabelti og Los Angeles og San Francisco.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu einstaka tækifæri, ég er hrifinn af framtíðarsýn félagsins og er spenntur fyrir því að stýra uppbyggingu ungu leikmannanna í félaginu,“ sagði Teitur á vef Whitecaps.