Bayern ætlar að hafa þýskumælandi þjálfara

Mourinho þarf að læra þýsku ef hann hefur áhuga á …
Mourinho þarf að læra þýsku ef hann hefur áhuga á að þjálfa Bayern. Reuters

Franz Beckenbauer, forseti þýska liðsins Bayern München, segir að José Mourinho, fyrrum þjálfari Chelsea, komi vel til greina sem næsti þjálfari þýska liðsins.

Ottmar Hitzfeld hefur tilkynnt að hann ætli að láta af störfum sem þjálfari Bayern eftir þetta tímabil og forráðamenn þýska liðsins eru þegar farnir að huga að eftirmanni hans.

„Við þurfum reyndan mann sem er með taktíkina á hreinu og hann þarf að tala þýsku. Við viljum fá einhvern af bestu þjálfurum heims,“ sagði Beckenbauer í dag.

Spurður um hvort Mourinho komi þá ekki til greina. „Mourinho? Jú, hvers vegna ekki? Hann hefur þá tíma fram á næsta sumar til að fara á þýskunámskeið. En það eru aðrir sem eru alveg jafn frambærilegir.“

mbl.is