Norðmenn líklega með þrjá sóknarmenn gegn Íslandi

Morten Gamst Pedersen hefur farið ágætlega af stað í ensku …
Morten Gamst Pedersen hefur farið ágætlega af stað í ensku úrvalsdeildinni. Reuters

Morten Gamst Pedersen, leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Blackburn, verður ekki í byrjunarliði norska landsliðsins sem mætir því íslenska á laugardaginn í fyrsta leik undankeppni HM að því er fréttamenn Nettavisen telja. Þeir segja nær öruggt að Norðmenn stilli upp þriggja manna sóknarlínu.

Talið er að Rune Jarstein muni standa milli stanganna og fyrir framan hann muni Tom Høgli, Tore Reginiussen, Brede Hangeland og John Arne Riise mynda fjögurra manna varnarlínu. Þá er talið næsta víst að Thorstein Helstad, John Carew og Steffen Iversen myndi þriggja manna sóknarlínu, en þetta hafa fréttamenn Nettavisen lesið út úr æfingum norska liðsins.

Erfiðara er að meta hvaða þrír leikmenn verði á miðjunni en sennilega verða það þeir Martin Andresen, Fredrik Winsnes og Fredrik Strømstad, sem þýðir að Morten Gamst Pedersen, einn þekktasti leikmaður Noregs, verður á bekknum eins og hann var reyndar í æfingaleik við Íra nú nýverið.

mbl.is

Bloggað um fréttina