Árni Gautur og Gunnleifur valdir í landsliðið

Árni Gautur Arason.
Árni Gautur Arason. mbl.is

Ólafur Jóhannesson þjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu tilkynnti nú í hádeginu landsliðshópinn sem etur kappi við Hollendinga og Makedóna í undankeppni HM. Það sem vekur mesta athygli er að Ólafur skiptir um markverði í liðinu. Árni Gautur Arason, Odd Grenland, og Gunnleifur Gunnleifsson úr HK koma inn fyrir Kjartan Sturluson, Val og Stefán Loga Magnússon, KR.

Árni Gautur lék síðast með landsliðinu í nóvember í fyrra þegar Íslendingar töpuðu gegn Dönum í lokaleik sínum í undankeppni HM en það fyrsti leikur liðsins undir stjórn Ólafs Jóhannessonar. Hann samdi í sumar við norska liðið Odd Grenland og hefur staðið sig vel á milli stanganna en Árni hefur mörg undanfarin ár verið aðalmarkvörður liðsins.

Gunnleifur, sem hefur átt góðu gengi að fagna með HK-liðinu í sumar, á að baki 3 landsleiki. Hann lék sinn fyrsta leik gegn Möltu árið 2000 og lék svo tvo leiki á Indlandsmótinu árið 2001.

Þá hefur Ólafur Jóhannesson kallað á Brynjar Björn Gunnarsson í landsliðshóponn að nýju en Brynjar er nýlega farinn að spila með Reading á nýjan leik eftir langvarandi meiðsli. Helgi Valur Daníelsson úr Elfsborg er einnig kominn aftur í hópinn en hann átti í meiðslum en hefur jafnað sig af þeim.

Landsliðshópurinn er þannig skipaður, landsleikir í sviga

Markverðir:
Árni Gautur Arason, Odd Grenland (64)
Gunnleifur Gunnleifsson, HK (3)

Varnarmenn:
Hermann Hreiðarsson, Portsmouth (79)
Indriði Sigurðsson, Lyn (38)
Kristján Örn Sigurðsson, Brann (32)
Grétar Rafn Steinsson, Bolton (27)
Birkir Már Sævarsson, Brann (10)
Ragnar Sigurðsson, Gautaborg (9)
Bjarni Ólafur Eiríksson, Val (9)

Miðjumenn:
Brynjar Björn Gunnarsson, Reading (65)
Stefán Gíslason, Bröndby (25)
Emil Hallfreðsson, Reggina (18)
Pálmi Rafn Pálmason, Stabæk (7)
Theódór Elmar Bjarnason, Lyn (7)
Helgi Valur Daníelsson, Elfsborg (7)
Aron Einar Gunnarsson, Coventry (6)
Davíð Þór Viðarsson, FH (5)
Arnór Smárason, Heerenveen (1)

Sóknarmenn:
Eiður Smári Guðjohnsen, Barcelona (53)
Heiðar Helguson, Bolton (42)
Veigar Páll Gunnarsson, Stabæk (22)
Guðmundur Steinarsson, Keflavík (2)

Þeir sem detta út úr hópnum frá leikjunum við Norðmenn og Skota eru markverðirnir Kjartan Sturluson og Stefán Logi Magnússon, Hólmar Örn Rúnarsson, Keflavík, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Esbjerg, Jónas Guðni Sævarsson, Keflavík og Stefán Þór Þórðarson úr ÍA.

Íslendingar mæta Hollendingum í Rotterdam þann 11. október og taka síðan á móti Makedónum á Laugardalsvelli fjórum dögum síðar.

Gunnleifur Gunnleifsson markvörður HK var valinn í íslenska landsliðshópinn.
Gunnleifur Gunnleifsson markvörður HK var valinn í íslenska landsliðshópinn. mbl.is/Haraldur Guðjónsson
mbl.is