Arsenal mun spila sóknarbolta í kvöld

Wenger ætlar að spila sóknarbolta gegn Roma í kvöld.
Wenger ætlar að spila sóknarbolta gegn Roma í kvöld. Reuters

Arséne Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, lætur lið sitt ekki leggjast í vörn í seinni leiknum gegn Roma í 16-liða úrslitum meistaradeildarinnar í kvöld, en leikið er á Ólympíuleikvanginum í Rómarborg. Fyrri leikur liðanna fór 1:0 fyrir Arsenal og ætlar Wenger að freista þess að skora snemma.

„Við þurfum jákvætt hugarfar og megum ekki liggja bara aftur og verjast. Sem lið erum við sterkir sóknarlega. Ef við einblínum á að verjast og treysta á skyndisóknir, bjóðum við hættunni heim. Ef við skorum, eigum við hinsvegar frábæra möguleika á að komast áfram,“ sagði Wenger.

Arsenal hefur ekki tapað í 17 leikjum í röð, þegar allar keppnir eru taldar og hafa aðeins fengið á sig þrjú mörk á síðustu níu vikum. Skori þeir mark í kvöld hafa þeir jafnvel efni á því að tapa leiknum þar sem Roma tókst ekki að skora á útivelli.

Arsenal hefur endurheimt þá Kolo Toure, Samir Nasri, Eduardo, Denilson, og Theo Walcott úr meiðslum og geta nánast teflt fram sínu sterkasta liði.

Hjá Roma hinsvegar eru Cicinho, Simone Perrotta, Marco Cassetti, og Daniele de Rossi allir meiddir og óvíst er með þáttöku Francesco Totti, David Pizarro, Doni, Alberto Aquilani, og Philippe Mexés. Hinsvegar verður „Skepnan“, Julio Baptista, Brasilíumaðurinn sem lék eitt tímabil með Arsenal, í byrjunarliði Roma, en hann hefur átt frábært tímabil á Ítalíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert