Sigurður tekur við Njarðvík

Sigurður Ingimundarson.
Sigurður Ingimundarson. Árni Sæberg

Sigurður Ingimundarson hefur verið ráðinn sem þjálfari körfuknattleiksliðs Njarðvíkur í úrvalsdeild karla og skrifar hann undir samning til tveggja ára á morgun. Jón Guðlaugsson formaður kkd. Njarðvíkur segir að mikil ánægja sé með ráðningu Sigurðar. „Sigurður er toppþjálfari og það er mikil tilhlökkun í okkar röðum að fá hann til starfa,“ sagði Jón í samtali við mbl.is í dag.

Valur Ingimundarson var áður þjálfari Njarðvíkur en hann óskaði eftir þvi á föstudaginn að fá að hætta með liðið af persónulegum ástæðum. Valur og Sigurður er bræður en Sigurður hafði ráðið sig til starfa hjá sænska liðinu Solna í Stokkhólmi en hann hætti þar störfum eftir aðeins tvo deildarleiki vegna ágreinings um stefnu félagsins. 

 „Þessi atburðarás er ekki plönuð af einum né neinum. Hlutirnir þróuðust bara með þessum hætti. Valur vildi hætta, Sigurður var á lausu og við höfðum strax samband við hann. Líklega segja margir að þetta sé lyginni líkast en þetta var alls ekki planað með neinum hætti. Okkur hlakkar til að starfa með Sigurði.“

Formaðurinn segir að Valur hafi átt frumkvæðið að því að hætta störfum. „Valur taldi að sinn tími var einfaldlega liðinn, hann fann sig ekki i þessu starfi og við urðum að beiðni hans. Við vorum ánægðir með störf Vals,“ sagði Jón.

mbl.is