KV fær liðsauka fyrir baráttuna í sumar

Austfirðingurinn Ingvar Rafn Stefánsson ásamt Birni Berg Gunnarssyni, stjórnarmanni KV.
Austfirðingurinn Ingvar Rafn Stefánsson ásamt Birni Berg Gunnarssyni, stjórnarmanni KV.

Knattspyrnufélag Vesturbæjar, KV, leikur í fyrsta skipti í 2. deild karla á Íslandsmótinu í sumar. Vesturbæingar hafa orðið sér úti um þó nokkurn liðsauka fyrir baráttuna sem framundan er.

KV var stofnað árið 2004 og hefur tekið þátt í Íslandsmótinu undanfarin fimm ár. Liðið náði sínum besta árangri á síðasta ári þegar það hafnaði í öðru sæti 3. deildar og vann sér sæti í 2. deild en beið lægri hlut fyrir Völsungi frá Húsavík í úrslitaleik um meistaratitil deildarinnar.

KV leikur heimaleiki sína á gervigrasvelli KR-inga en spilar fyrsta leikinn í 2. deild vestur í Ólafsvík þar sem það mætir heimamönnum í Víkingi laugardaginn 15. maí.

KV sendi í dag frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

„Knattspyrnufélag Vesturbæjar, sem leikur í 2. deild í sumar, hefur fengið mikinn liðsstyrk fyrir komandi átök, en fimm leikmenn gengu á dögunum til liðs við félagið.

Halldór Svavar Sigurðsson, fæddur 1982 kemur frá Hömrunum/Vinum en þessi mikli markaskorari lék áður með Magna, Snerti og Eflingu.

Ingvar Rafn Stefánsson, fæddur 1987 skiptir úr Leikni Fáskrúðsfirði en lék áður með Hvöt og Fjarðabyggð

Jason Már Bergsteinsson, fæddur 1988 kemur aftur í Vesturbæinn úr Gróttu þar sem hann lék 16 leiki undanfarin tvö ár í 2. deild

Magnús Helgason, fæddur 1990 gengur til liðs við KV frá Víkingum og snýr á fornar slóðir.

Björn Ívar Björnsson, fæddur 1988 gengur svo formlega til liðs við KV, en hann hefur verið í láni frá KR síðastliðin 2 tímabil og skoraði m.a. 11 mörk í 11 leikjum fyrir Vesturbæjarliðið sumarið 2009.

KV fagnar komu þessara öflugu leikmanna og telur sérstaklega gleðilegt að fá þá Magnús og Jason aftur heim í Vesturbæinn."

mbl.is