Ólafur: Það þarf allt að ganga upp á Parken

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Undirbúningurinn hefur gengið fínt og stemningin er góð eins og alltaf. Það koma nýir brandarar með nýjum strákum," sagði Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari í knattspyrnu á blaðamannafundi á Parken í kvöld.

Ólafur ræddi þar við fréttamenn áður en æfing landsliðsins hófst á Parken en hún stendur þar yfir þessa stundina. Ísland mætir Dönum á Parken annað kvöld í undankeppni EM klukkan 18.15 að íslenskum tíma.

Ólafur sagði að ástand leikmanna eftir Noregsleikinn væri gott að öðru leyti en því að Grétar Rafn Steinsson hefði helst úr lestinni og það væri að sjálfsögðu talsverður missir í honum.

„ Af þeim hópi sem er hérna er Árni Gautur er eina spurningin. Hann er í síðasta testinu hérna á Parken í kvöld. Hann á í erfiðleikum með að sparka langt og það reynir á það í kvöld," sagði Ólafur.

Hann kvaðst eiga von á allt öðruvísi og erfiðari leik annað kvöld en gegn Norðmönnum á Laugardalsvellinum á föstudagskvöldið.

"Á móti Noregi töldum við okkur eiga góða sigurmöguleika á heimavelli og settum leikinn upp í samræmi við það. Nú erum við að spila við mun sterkara lið á útivelli og það er alveg ljóst að Danir koma til með að vera meira með boltann en við. Þeir eru Brasilíumenn Evrópu og tæknilega mjög fínir og með góðan skilning á því sem þeir gera, og hafa verið með sama þjálfarann í 10-12 ár.

Við komum örugglega til með að lenda í dálitlum eltingaleik við þá en munum reyna að vinna þetta svæðisbundið og loka ákveðnum leiðum fyrir Danina. Þeir pressa mjög stíft þegar þeir missa boltann, reyna að vinna hann strax framarlega, og við þurfum að finna leiðir til að komast útúr þeirri pressu. Örugglega þurfum við oftar en ekki að losa hana með því að senda langar sendingar fram, en við ætlum að reyna eftir megni að nýta okkur þá möguleika sem gefast til að spila og sækja hratt.

Það eru breytingar hjá danska liðinu, þrír reyndir eru hættir og svo er Bendtner meiddur. En Danirnir eru fimm milljónir og ekki í vandræðum með að fylla í skörðin og eiga nóg af frábærum leikmönnum."

Ólafur kvaðst ekki velta sér mikið uppúr fyrri úrslitum í viðureignum Íslendinga og Dana.

"Nei, í sjálfu sér ekki. Ég las einhvers staðar að við hefðum aldrei unnið Dani og fjórum sinnum gert jafntefli við þá. Ég er svo sem ekki mikið að pæla í því. En það er hinsvegar ljóst að það þarf allt að ganga upp. Ég veit að hugarfar leikmanna okkar er 100 prósent, ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Þeir koma klárir inná völlinn og munu allir gera sitt besta. En við megum hvergi misstíga okkur, ekki í eina sekúndu, því þá er okkur refsað fyrir það. Á því þurfum við að vara okkur.

Ég veit ekki hvort Danir vanmeti okkur, en það má samt gera ráð fyrir að þeir telji sig ganga nokkuð vísa að sigri gegn okkur, og það gæti hjálpað okkur. Jafntefli væri frábær úrslit fyrir okkur. Við förum inná völlinn með eitt stig og munum berjast með kjafti og klóm fyrir því, og ég hef engar áhyggjur af öðru en að það verði gert. "

Hann sagði að leikurinn gegn Noregi á föstudagskvöldið hefði ekki verið sérstaklega krufinn til mergjar.

„Ég hef ekki gert mikið úr því. Ég hef rætt leikinn við tvo og tvo leikmenn saman, þrjá og þrjá saman, og farið yfir ákveðna hluti. Við höfum hinsvegar ekki kafað djúpt í þann leik, það hefur einfaldlega ekki verið tími til þess og við höfum fyrst og fremst einbeitt okkur að Danaleiknum og undirbúningi fyrir hann," sagði Ólafur Jóhannesson á Parken fyrir stundu.

Ítarlega verður fjallað um viðureign Danmerkur og Íslands í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið, í máli og myndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina