Jóhann skoraði í sigurleik í Evrópudeildinni

Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. mbl.is/Eggert

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, skoraði fyrra mark AZ Alkmaar í dag þegar liðið sigraði Sheriff frá Moldóvu, 2:1, í Evrópudeild UEFA í Hollandi.

Jóhann Berg skoraði á 14. mínútu, 1:0, en samherji hans jafnaði með sjálfsmarki á 68. mínútu, 1:1.

Kolbeinn Sigþórsson, félagi Jóhanns úr landsliðinu, var á varamannabekk AZ Alkmaar í dag en kom inná fyrir Jóhann á 77. mínútu og sex mínútum síðar skoraði Jaliens sigurmark Hollendinganna, 2:1.

Dynamo Kiev frá Úkraínu og Íslandsvinirnir í BATE Borisov frá Hvíta-Rússlandi eru hin tvö liðin í riðlinum en þau gerðu jafntefli, 2:2, í Kiev í dag.

Einn Íslendingur í viðbót er á ferðinni í Evrópudeildinni í kvöld. Rúrik Gíslason er í liði OB frá Danmörku sem sækir Getafe heim til Spánar en leikurinn hefst kl. 19.05.

mbl.is