Sigursteinn: Vorum yfirspenntir

Frá viðureign Leiknir og Víkings í sumar.
Frá viðureign Leiknir og Víkings í sumar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Betra liðið vann,“ sagði Sigursteinn Gíslason þjálfari 1. deildar liðs Leiknis eftir 1:3 tap fyrir Fjölni í Breiðholtinu í dag, sem kom í veg fyrir Leiknir kæmist upp í efstu deild í fyrsta sinn.

Það mátti greinilega merkja spennu utan vallar sem innan á Leiknisvelli. „Það hafði ekki áhrif á mig en getur hafa haft áhrif á strákana. Ég sagði við þá ef þeir höndluðu ekki aðeins fleiri áhorfendur en venjulega hefðu þeir ekkert að gera í úrvaldsdeildinni. Það var því búið að fara í sálfræðilega þáttinn en það hefur bara ekki virkað og svo fór sem fór. Mér fannst mínir menn spila öðruvísi en venjulega, voru yfirspenntir. Ég fann fyrst fyrir því fyrir austan um síðustu helgi þegar okkur tókst ekki að klára okkur þar og bjóst við að menn yrðu tilbúnir í dag en það var greinilega ekki og ég verð bara að taka það á mig.“

„Í upphafi var bara markmið að vinna alltaf næsta leik en þegar það tókst aftur og aftur þegar við unnum fullt af leikjum og árangurinn heimavelli varð alltaf betri og betri sáu menn glitta í eitthvað stórt og þá vill maður það en því miður tókst það ekki og ég óska Þórsurum og Víkingum innilega til hamingju, þeir áttu þetta greinilega algerlega skilið. Þó deildin hafi endað svona verða menn að átta sig á því að þetta er langbesti árangur Leiknis frá upphafi, sjötta sætið var það besta hingað til og ef að enda í því þriðja er ekki eitthvað til að byggja á, þá veit ég ekki hvað þarf til.  Framtíðin er klárlega hérna.“  

Sigursteinn hefur þjálfað Leikni í tvö ár.  „Ég veit ekki hvað verður með næsta ár. Það er eitt ár eftir af samningnum en uppsagnarákvæði hjá mér og stjórn félagsins, kannski vill hún ekkert hafa mig áfram en það þarf bara að setjast niður og skoða það. Ég er enn að melta þennan leik og get ekki hugsað lengra í augnablikinu.“

mbl.is