Mourinho neitaði að tala

Jose Mourinho neitaði að tjá sig um væntanlega viðureign Real …
Jose Mourinho neitaði að tjá sig um væntanlega viðureign Real Madrid og Barcelona á blaðamannafundi í dag. Reuters

Hinn litríki þjálfari Real Madrid, Jose Mourinho, neitaði að svara spurningum blaðamanna á fundi hjá félaginu í dag vegna leiksins við Barcelona í spænsku 1. deildinni annað kvöld.

Aitor Karanka, aðstoðarþjálfari Real Madrid, svaraði spurningum fjölmiðla á fundinum og sagði að Mourinho hafi fengið sig full saddan á að snúið væri út úr ummælum hans í fjölmiðlum. Þess vegna hafi hann valið þann kost að tjá sig ekki að þessu sinni. 

Mourinho  mætti á fundinn en sat sem steinrunninn við hlið aðstoðarþjálfarans allan tímann.

Mourinho var harðlega gagnrýndur á Spáni á dögunum eftir að hann kom ekki á blaðamannafund eftir 3:0 sigur Real Madrid á Athletic Bilbao um síðustu helgi.

Mikil spenna er í loftinu vegna viðureignar Real Madrid og Barcelona á morgun en það verður fyrsta viðureignin af fjórum þar sem liðin munu etja kappi á næstu þremur vikum. Framundan er einnig úrslitaleikur liðanna um spænska bikarinn og tveir leikir í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Barcelona hefur átta stig forskot á Real Madrid í efsta sæti spænsku 1. deildarinnar þegar sjö umferðir eru eftir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert