Hólmar frá í tvo mánuði

Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson. mbl.is/Árni Sæberg

Hólmar Örn Eyjólfsson, miðvörður 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, þarf að gangast undir uppskurð á fæti næsta þriðjudag. Hann verður frá keppni næstu tvo mánuðina af þeim sökum.

Meiðsli sem Hólmar varð fyrir hjá West Ham í desember tóku sig upp að nýju en hann hóf æfingar með sínu nýja félagi, Bochum í Þýskalandi, á mánudaginn.

Á vef Bochum kemur fram að Hólmar hafi fundið fyrir miklum óþægindum í langhlaupi hjá þrekþjálfara liðsins á miðvikudaginn. Í ljós hafi komið að nagli sem komið var fyrir í ristinni ylli honum þessum óþægindum og laga þyrfti það með uppskurði.

Hefur sýnt að hann fellur inn í okkar lið

„Þetta þykir mér mjög leitt því á þessum 2-3 dögum hefur Hólmar sýnt að hann fellur inn í okkar lið. Hann þarf núna að fá frið til að jafna sig af þessu. Aðalmálið er að hann fái sig góðan, hann hefur nógan tíma til að koma inn í liðið hjá okkur,“ sagði Friedhelm Funkel, þjálfari Bochum, á vef félagsins.

Hólmar kom til liðs við Bochum um mánaðamótin þegar hann var laus undan samningi sínum við West Ham en hann var í röðum Lundúnaliðsins í þrjú ár. Hólmar er tvítugur að aldri og er þriðji leikjahæsti landsliðmaður Íslands með 21-árs liði frá upphafi, með 21 leik. Hann er jafnframt gjaldgengur áfram með 21-árs landsliðinu í næstu Evrópukeppni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert