ÍA heldur áfram sigurgöngunni

Gary John Martin hleypir af í átt að KA-markinu á …
Gary John Martin hleypir af í átt að KA-markinu á Akureyrarvelli í kvöld. Martin lék afar vel. mbl.is/Skapti

Skagamenn eru með sex stiga forskot á toppi 1. deildar karla í knattspyrnu eftir öruggan 4:1 sigur á KA norðan heiða í kvöld. KA er hins vegar í þriðja neðsta sæti, sex stigum frá fallsæti. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

KA - ÍA, 1:4
(Guðmundur Böðvar Guðjónsson (sjálfsm.) 61. - Guðjón Heiðar Sveinsson 6., Ólafur Valur Valdimarsson 18., Hjörtur Hjartarson 53., 80.)

90. Leik lokið. Afar sanngjarn sigur Skagamanna í höfn.

80. MARK! Mark Doninger tók hornspyrnu frá vinstri og sendi boltann inn að markteig þar sem Hjörtur Hjartarson skoraði með skalla sitt annað mark og fjórða mark ÍA.

64. KA-menn hafa sótt í sig veðrið og nú átti Elfar Sigurðsson spyrnu í þverslána utan af kanti. Þetta átti líklega frekar að vera fyrirgjöf en skapaði hættu.

61. MARK! Haukur Heiðar Hauksson átti fasta fyrirgjöf frá hægri sem fór af Guðmundi Böðvari Guðjónssyni Skagamanni og í mark ÍA.

59. Gary Martin lék framhjá tveimur varnarmönnum og kom sér í gott færi en Sandor Matus varði skot hans. Martin náði frákastinu og vippaði þá yfir Matus en í stöngina, og þaðan í hendur markvarðarins. Skagamenn eru mun líklegri til að bæta við mörkum en KA að minnka muninn.

53. MARK! Gary Martin sendi boltann fyrir frá hægri og Hjörtur Hjartarson var mættur á fjærstöng og skallaði knöttinn í netið af stuttu færi. Staðan því 3:0.

45. Hálfleikur. Skagamenn eru verðskuldað yfir 2:0 þegar liðin ganga til búningsklefa.

35. Staðan er enn 2:0 og lítið um færi. Skagamann eru áfram sterkari aðilinn og átti Hjörtur Hjartarson skalla yfir mark KA eftir aukaspyrnu. Heimamenn hafa þó verið að vinna sig betur inn í leikinn.

18. MARK! Skagamenn eru greinilega í stuði. Gary Martin átti fyrirgjöf frá vinstri á Ólaf Val Valdimarsson sem potaði boltanum í markið af fjærstönginni og kom ÍA í 2:0.

17. Mark Doninger tók aftur aukaspyrnu frá vinstri og Guðjón Heiðar Sveinsson tók boltann niður með brjóstkassanum en skaut í nærstöngina.

15. Ólafur Valur Valdimarsson spyrnti boltanum frá vinstri kantinum og lenti hann ofan á þverslánni og fór þaðan út í teiginn áður en KA-menn komu honum í burtu. Líklega var þetta fyrirgjöf frá Ólafi en hættuleg engu að síður.

6. MARK! Mark Doninger tók aukaspyrnu frá vinstri og sendi boltann yfir varnarmenn KA og alla leið á Guðjón Heiðar Sveinsson sem skallaði knöttinn í þverslána og inn. Draumabyrjun hjá toppliðinu.

1. Þá er leikur KA og ÍA hafinn í blíðviðrinu norðan heiða.

Leikskýrsla.

mbl.is