Veigar Páll biðst afsökunar

Veigar Páll Gunnarsson.
Veigar Páll Gunnarsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Veigar Páll Gunnarsson, knattspyrnumaður, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann harmar að hafa brotið gegn agareglum íslenska landsliðsins í knattspyrnu um síðustu helgi en brot hans varð til þess að honum var vísað úr landsliðshópnum áður en kom að leiknum við Kýpur í undankeppni Evrópumótsins á Laugardalsvelli síðasta þriðjudag.

Veigar Páll segir hegðun sína hafa verið ófagmannlega og biður hann félaga sína í A-landsliðinu afsökunar svo og alla knattspyrnuáhugamenn, stuðningsmenn og samstarfsaðila Knattspyrnusambandsins.

Yfirlýsingu Veigars Páls má lesa í heild hér að neðan:

„Ég harma að hafa brotið gegn þeim agareglum sem í gildi voru fyrir A-landslið karla síðastliðinn laugardag.  Hegðun mín var ófagmannleg og óásættanleg og ég bið félaga mína í A- landsliði Íslands afsökunar, svo og alla knattspyrnuáhugamenn, stuðningsmenn og samstarfsaðila Knattspyrnusambandsins. Eftirmál þessa hafa orðið mér dýrkeypt og kostað mig sæti í landsliðinu. Ég sætti mig við orðinn hlut og mun ekki dvelja við þetta mál lengur eða tjá mig frekar um málið. Vonandi verður þetta öðrum víti til varnaðar.

Frá því ég var fyrst valinn til að leika fyrir Íslands hönd, hef ég ávallt litið á það sem heiður og forréttindi að leika með íslenska landsliðinu og ég hef jafnan gefið kost á mér þegar til mín hefur verið leitað.  Á því hefur ekki orðið nein breyting þó mér hafi nú orðið á í messunni. 

Ég vil nota tækifærið og óska félögum mínum í landsliðinu velfarnaðar í lokaleik undankeppni EM  um leið og ég óska þeim til hamingju með langþráðan sigur gegn Kýpur. 

Áfram  Ísland !

Veigar Páll Gunnarsson.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert