Hólmfríður: Hausinn á mér hringsnýst

Hólmfríður Magnúsdóttir.
Hólmfríður Magnúsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Hólmfríður Magnúsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, stefnir að því að spila í einhverri af sterkustu deildum Evrópu eftir að í ljós kom rétt áðan að keppni í bandarísku atvinnudeildinni hefur verið frestað um eitt ár.

„Þetta eru hræðilegar fréttir, alveg glatað. Ég frétti bara af þessu fyrir þremur tímum og hausinn á mér hringsnýst ennþá. En nú set ég bara allt á fullt og stefni að því að spila í einhverri af sterkustu deildum Evrópu og byrja á að fara til Noregs á fimmtudaginn eins og til stóð,“ sagði Hólmfríður við mbl.is rétt í þessu.

Eins og áður hefur komið fram á mbl.is og í Morgunblaðinu stefndi Hólmfríður að því að koma til Evrópu síðsumars, eftir að keppni lyki í Bandaríkjunum, og ætlar að þekkjast boð Arna-Björnar frá Noregi um að skoða aðstæður þar. Hólmfríður sagði að sú áætlun myndi standa og hún færi til Noregs á fimmtudaginn.

Katrín Ómarsdóttir er í sömu stöðu og Hólmfríður en hún var búin að semja  við Philadelphia Independence. Hólmfríður átti að hefja sitt þriðja tímabil þar í mars.

Katrín tók í svipaðan streng og Hólmfríður. „Ég sit bara við tölvuna og er að íhuga málið. Ég fékk staðfestingu á þessu fyrir klukkutíma eða svo. Eigendurnir hafa víst rætt þetta síðustu daga og þeir tóku bara þessa ákvörðun. Eftir að ákveðið var að deildin myndi halda áfram á þessu ári þá hélt maður að þetta yrði í lagi en það er alltaf eitthvaði í gangi með þessa deild,“ sagði Katrín við mbl.is.

Nánar verður rætt við Hólmfríði og Katrínu og fjallað um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina