Danir unnu og Ísland í 6. sæti

Danmörk sigraði Ísland, 3:1, í úrslitaleik um 5. sætið í Algarve-bikarnum í knattspyrnu í bænum Vila Real de Santo Antonio í Portúgal í dag. Ísland hafnaði þar með í sjötta sætinu af tólf liðum og jafnar sinn annan  besta árangur á mótinu frá upphafi.

Danir komust snemma í 2:0 með tveimur mörkum frá Sanne Troelsgaard Nielsen en Hólmfríður Magnúsdóttir minnkaði muninn í lok fyrri hálfleiks, 2:1. Leikurinn var síðan jafn og tvísýnn í seinni hálfleik, Ísland fékk nokkur færi til að jafna metin, en Danir  tryggðu sér sigurinn á 88. mínútu þegar Johanna Rasmussen, leikmaður Íslendingaliðsins Kristianstad í Svíþjóð, skoraði, 3:1.

Ísland var án lykilmanna í dag því bæði Margrét Lára Viðarsdóttir og Sara  Björk Gunnarsdóttir hvíldu, en Margrét var ekki leikfær í dag. Þá misstu Rakel Hönnudóttir, Katrín Ómarsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir af leiknum vegna meiðsla.

Bandaríkin sigruðu Svíþjóð, 4:0, í leiknum um bronsverðlaunin og Noregur vann Wales, 3:0, í leiknum um 7. sætið. Kínverjar unnu Portúgal, 1:0, í leik um 9. sætið og Írar sigruðu Ungverja, 2:1, í leiknum um 11. sætið.

Úrslitaleikur heimsmeistara Japans og Evrópumeistara Þýskalands er eini leikurinn sem eftir er á mótinu.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

90+3. Flautað af í lokaleik Íslands á mótinu. Niðurstaðan er 3:1 sigur Dana sem enda í 5. sætinu.

90. Þremur mínútum bætt við leiktímann. Írar vinna Ungverja, 2:1, í leiknum um 11. sætið.

88. MARK - 1:3. Johanna  Rasmussen skorar fyrir Dani og tryggir þeim væntanlega sigurinn. Markið kemur eftir talsverðan sóknarþunga Íslands en Danir ná snöggri sókn upp miðjuna.

86. Bandaríkin eru komin í 4:0 gegn Svíum í leiknum um 3. sætið og Norðmenn í 3:0 gegn Walesbúum í leiknum um 7. sætið.

85. Hin 17 ára gamla Anna María Baldursdóttir kemur inná fyrir Elísu Viðarsdóttur og spilar sinn annan A-landsleik.

82. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í dauðafæri eftir fyrirgjöf Fanndísar Friðriksdóttur frá hægri en hún skýtur framhjá marki Dana af stuttu færi.

81. Í danskri lýsingu frá leiknum segir að dönsku leikmennirnir séu orðnir þreyttir og nú þurfi heppni til að forðast íslenskt jöfnunarmark.

80. Barátta áfram á báða bóga en lítið um marktækifæri.

75. Íslenska liðið hefur sótt talsvert í seinni hálfleiknum en Danir hafa heldur náð að komast inní leikinn aftur síðustu mínútur.

71. Thelma Björk Einarsdóttir kemur inná fyrir Gretu Mjöll Samúelsdóttur.

65. Hólmfríður Magnúsdóttir er rétt að sleppa í gegnum dönsku vörnina, þá er togað í hana en hún rífur sig lausa og heldur áfram. Dómarinn dæmir hinsvegar aukaspyrnu, og uppúr henni munar minnstu að Katrín Jónsdóttir nái til boltans í góðu færi.

63. Mist Edvardsdóttir fær fyrsta gula spjaldið í leiknum.

55. Fyrsta skipting Íslands. Mist Edvardsdóttir kemur fyrir Hörpu Þorsteinsdóttur og það kallar á tilfærslur. Guðný B. Óðinsdóttir færir sig úr hægri bakverði í stöðu Hörpu fremst á miðjunni. Elísa Viðarsdóttir er nú hægri bakvörður og Mist miðvörður við hlið Katrínar Jónsdóttur.

54. Ísland er nærri því að jafna metin. Góð sókn og skot frá Hólmfríði Magnúsdóttur sem markvörður Dana ver glæsilega.

54. Kína sigrar Portúgal, 1:0, í leiknum um 9. sætið á mótinu. Írar eru 2:0 yfir  gegn Ungverjum í leiknum um 11. sætið.

49. Noregur hefur náð 1:0 forystu gegn Wales í leiknum um 7. sætið sem hófst á sama tíma.

46. Seinni hálfleikur er hafinn. Katrín Jónsdóttir fyrirliði þurfti talsverða aðhlynningu í hálfleik, fékk högg á  bæði öxl og læri. Hún er hinsvegar áfram með, enda bítur fátt á landsliðsfyrirliðann sem spilar sinn 115. landsleik í dag.

45. HÁLFLEIKUR - Fyrri hálfleik lokið og Danir með forystu, 2:1. Verðskuldað miðað við gang leiksins til þessa en mark Hólmfríðar eykur möguleika íslenska liðsins til muna fyrir síðari hálfleikinn.

44. MARK - 1:2. Hólmfríður Magnúsdóttir skorar. Hún setur pressu á danska markvörðinn, nær boltanum af honum og sendir hann í tómt markið. Fínn tími til að laga stöðuna fyrir hlé. Þetta er 27. mark Hólmfríðar fyrir A-landslið Íslands, í 68 landsleikjum, og aðeins Margrét Lára Viðarsdóttir hefur gert betur. Reyndar miklu betur, 63 mörk í 79 landsleikjum.

43. Bandaríkjamenn eru komnir í 3:0 gegn Svíum í leiknum um bronsverðlaunin á mótinu, sem hófst á sama tíma.

41. Þóra B. Helgadóttir ver hörkuskot frá Pernille Harder. Þóra hefur þurft að grípa talsvert inní leikinn það sem af er.

38. Hurð skall nærri hælum við danska markið. Eftir fyrirgjöf Hallberu frá  vinstri fær Ísland hornspyrnu. Dóra María sendir fyrir markið, og eftir slag þar bjarga Danir á marklínu. Boltinn hrekkur út og Greta Mjöll Samúelsdóttir á skot rétt yfir danska markið.

30. Hálftími liðinn og staðan er 0:2. Íslenska liðið hefur dregið sig aðeins aftar á völlinn, þétt vörn og miðsvæði, og beitir nú skyndisóknum.

23. Hólmfríður er aftur á ferðinni með fína skottilraun en danski markvörðurinn ver.

20. Hólmfríður Magnúsdóttir hefur skipt um stöðu við Fanndísi Friðriksdóttir, fer í framlínuna en Fanndís á kantinn. Hólmfríður á ágætt skot yfir mark Dana.

17. MARK - 0:2. Heldur versnar það. Danir fá hornspyrnu, koma  boltanum fyrir í annað sinn, Þóra nær ekki að góma hann og Sanne Troelsgaard skorar sitt annað mark af stuttu færi.

7. Íslenska liðið hefur sótt nokkuð eftir markið. Fékk hornspyrnu strax í kjölfarið og skömmu síðar var Greta Mjöll Samúelsdóttir nærri því sloppin í gegn eftir stungusendingu Hólmfríðar Magnúsdóttur.

2. MARK - 0:1. Danir byrja vel og eru komnir yfir. Náðu laglegri sókn, spiluðu sig í gegn hægra megin og skoruðu af stuttu færi. Sanne Troelsgaard skorar markið.

1. Leikurinn er hafinn í Portúgal.

10.36 - Á suðurströnd Portúgals er 15 stiga hiti og sól og spáð hitabylgju á næstu dögum. Fínar aðstæður fyrir leikinn gegn Dönum. Tíðindamenn mbl.is á staðnum hafa lítinn áhuga á að snúa heim að móti loknu, sérstaklega eftir fréttir af snjókomunni í nótt og morgun!

Ísland og Danmörk enduðu í 3. sæti A- og B-riðla mótsins, unnu bæði einn leik og töpuðu tveimur. Ísland sigraði Danmörku í fyrsta skipti á mótinu í fyrra, þá 1:0 með marki Dóru Maríu Lárusdóttur.

Lið Íslands: Þóra B. Helgadóttir - Guðný Björk Óðinsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Katrín Jónsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir - Dóra María Lárusdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir - Hólmfríður Magnúsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Greta Mjöll Samúelsdóttir.

Breytingar á byrjunarliðinu frá sigurleiknum gegn Kína á mánudag eru þær að Fanndís Friðriksdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir koma í staðinn fyrir Margréti Láru Viðarsdóttur, Söru Björk Gunnarsdóttur og Rakel Hönnudóttur.

Margrét Lára leikur ekki með í dag vegna meiðsla og þær Katrín Ómarsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir koma ekki heldur við sögu frekar en í síðustu leikjum en þær eru báðar meiddar. Þá er Sara Björk  Gunnarsdóttir á meðal varamanna í dag, sem og Rakel Hönnudóttir, en þær hafa byrjað inná í hinum þremur leikjum Íslands. Rakel þurfti að fara af velli í leiknum við Kínverja eftir að hafa fengið högg á hnéð og Malmö hafði óskað eftir því fyrir mótið að álagi á Söru yrði stillt í hóf vegna leikja sem framundan eru í Meistaradeildinni.

mbl.is