„Kom inn á hárréttum tíma“

Kolbeinn Sigþórsson og félagar í Ajax með hollenska meistaraskjöldinn eftir ...
Kolbeinn Sigþórsson og félagar í Ajax með hollenska meistaraskjöldinn eftir leikinn í gærkvöld. AFP

„Þetta er frábært, nánast ótrúleg tilfinning sem erfitt er að lýsa með orðum,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, eftir að hafa orðið hollenskur meistari með Ajax í gærkvöld. Lið hans vann þá Venlo, 2:0, í næstsíðustu umferð úrvalsdeildarinnar og er með sex stiga forskot fyrir þá síðustu.

„Ég kom inní liðið aftur á hárréttum tíma, hef náð nokkrum leikjum og tekist að skora nokkur mörk. Ég held að við séum búnir að slá eitthvert met með því að vinna 13 leiki í röð og gengið á liðinu hefur verið alveg magnað að undanförnu,“ sagði Kolbeinn við Morgunblaðið í miðri veislu leikmanna og forráðamanna Ajax í höfuðstöðvum félagsins í Amsterdam.