Hjörtur í hópi þeirra efnilegustu að mati UEFA

Hjörtur Hermannsson var fyrirliði U17 ára landsliðsins sem komst í ...
Hjörtur Hermannsson var fyrirliði U17 ára landsliðsins sem komst í 8-liða úrslit EM. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hjörtur Hermannsson, fyrirliði drengjalandsliðs Íslands í knattspyrnu og leikmaður úrvalsdeildarliðs Fylkis, hefur verið útnefndur sem einn af tíu áhugaverðustu leikmönnunum sem tóku þátt í úrslitakeppni Evrópumóts U17 ára landsliða í Slóveníu í síðasta mánuði. Á vef Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, er sagt um Hjört: „Þessi hávaxni miðvörður var afar atkvæðamikill í varnarleiknum, tapaði sjaldan einvígi í loftinu og er með góðar staðsetningar. Til viðbótar er hann með mjög góða móttöku á boltanum og er hættulegur í vítateig andstæðinganna og er fyrir vikið afar spennandi varnarmaður.“

Þetta vita Hollendingarnir í PSV Eindhoven sem sömdu við Hjört fyrir nokkrum mánuðum en hann gengur formlega til liðs við þá um næstu mánaðamót. Hann lék fyrir vikið sinn síðasta leik með Fylki í úrvalsdeildinni á dögunum, sigurleikinn gegn Val í fimmtu umferðinni. Hjörtur, sem varð 17 ára fyrr á þessu ári, lék níu leiki með Fylki í úrvalsdeildinni síðasta sumar og þrjá til viðbótar í vor. Hann á að baki 23 leiki með U17 ára landsliðinu og hefur þegar spilað 8 leiki með U19 ára landsliði Íslands. vs@mbl.is